Norðmenn hafa sett útflutningsmet á ferskum vertíðarþorski. Sala á þessum þorski, sem Norðmenn kalla skrei, jókst í ár um 60% frá sama tíma í fyrra, að því er fram kemur á vef norska sjávarútflutningsráðsins (Norges sjømatråd).

Eftir vertíðina í ár, sem stendur frá janúar til og með apríl, fluttu Norðmenn út ferskan, heilan þorsk fyrir 793,8 milljónir norskra króna (14,8 milljarðar ISK). Flutt voru út 43.426 tonn af vertíðarþorski miðað við 29.847 tonn á sama tíma í fyrra.

Fram kemur að Norðmenn hafi um nokkurt árabil sett sér það langtímamarkmið að auka þennan þátt þorskútflutningsins og nú sé það að skila árangri. SKREI® er skrásett vörumerki og Norðmenn markaðssetja ferska þorskinn sem sælkeramat. Miklum fjármunum er varið í auglýsingar, samstarf við þekkta kokka og við fjölmiðla.

Frakkland er stærsti markaðurinn fyrir norska ferska vertíðarþorskinn. Í ár sporðrenndu Frakkar um átta þúsund tonnum. Markaðurinn í Þýskalandi fer einnig stækkandi. Þá herja Norðmenn á Bandaríkjamarkaðinn sem aldrei fyrr.