Meðal verkefna sem nýr forstjóri Fiskistofu, Elín Björg Ragnarsdóttir, stendur frammi fyrir er aukin skilvirkni og sjálfvirknivæðing innan stofnunarinnar, opnun nýrrar starfsstöðvar í Neskaupstað og aukið drónaeftirlit með veiðum sem nær einnig til stórra fiskiskipa, svo fátt eitt sé nefnt.

Fiskistofa þurfti að flytja starfsemina úr húsnæðinu að Borgum á Akureyri síðastliðið vor í annað húsnæði í Hafnarstræti vegna mygluvandamála. Starfsemin er aftur komin í upphaflegt húsnæði eftir endurbætur og sagði Elín Björg það talsverðan létti þar sem rýmra er um starfsemina. Alls eru starfsmenn Fiskistofu 57 talsins og verkefnin eru mörg. Starfsemin er nú á fimm stöðum á landinu, þ.e. á Akureyri þar sem höfuðstöðvarnar eru, Hafnarfirði, Ísafirði, Stykkishólmi og Vestmannaeyjum. Framundan er opnun starfsstöðvar í Neskaupstað.

Meiri áhersla á Austfirði

„Við opnum nýja skrifstofu eftir áramót í Neskaupstað. Þegar starfsstöðinni var fundinn staður á Hornafirði fyrir um það bil 18 árum voru umsvif útgerðar talsvert meiri þar en núna. Stórum hluta af uppsjávaraflanum er landað í Neskaupstað, á Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Umfangið þar er orðið mun meira og það felst ákveðin hagræðing og kostnaðarlækkun að hafa starfsmenn á því svæði. Þegar mest er umleikis eru oft átta starfsmenn Fiskistofu á þessum svæðum og það fylgir því heilmikill kostnaður. Við skoðun á þessu kom í ljós að það borgaði sig að flytja starfsstöðina til Neskaupstaðar,“ segir Elín Björg.

Elín Björg Ragnarsdóttir, nýr Fiskistofustjóri
Elín Björg Ragnarsdóttir, nýr Fiskistofustjóri

Eftirlitsmennirnir fylgjast með löndun og skráningu afla. Viðveru þeirra er krafist alveg frá því að löndun hefst og þar til henni lýkur. Ein löndun getur tekið hátt í sólarhring og krefst stöðugrar viðveru eftirlitsmanna Fiskistofu.

Alþjóðlegir samningar

Fiskistofa þarf einnig að uppfylla alþjóðlega samninga um eftirlit með veiðum á NEAFC svæðinu (Norður-Atlantshafs fiskveiðiráðið) rétt utan landhelgi Íslands. Sum þeirra skipa sem eru við veiðar þar koma til Íslands til löndunar, einkum á Austfjörðum, og Fiskistofa þarf að hafa eftirlit með 5% landana og 7,5% af magni í uppsjávarveiðum af NEAFC-svæðinu til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. „Það hefur verið mikið álag á þessu svæði og við höfum ekki haft eftirlitsmenn staðsetta þar en erum að fara að auglýsa ný störf í Neskaupstað.“

Fjársvelt stofnun

Fiskistofa er enn fremur með alla umsýslu og umsjón hvað varðar aflaheimildir auk ýmissa stjórnsýsluverkefna á sviði fiskveiðistjórnunar. Fiskistofa veitir m.a. veiðileyfi til skipa, og tegundir veiðileyfa eru mörg, ásamt því að safna og miðla upplýsingum um sjávarútveg. Einnig hefur stofnunin á höndum ýmis verkefni á sviði lax- og silungsveiða s.s. út gáfu leyfa vegna framkvæmda við ár og vötn o.fl. Eftirlitsmenn á vegum Fiskistofu eru um borð í skipum og fylgjast með veiðum og veiðarfærum. Fiskistofa fylgist með löndum og skráningu afla. Þá heldur stofnunin úti rafrænu eftirliti og samkeyrir gögn til að greina frávik. „Það verður að segjast eins og er að stofnunin er nokkuð fjársvelt miðað við umfang starfseminnar og það er í járnum að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Skýrsla Ríkisendurskoðunar sem var gerð 2019 sýnir það svart á hvítu. Í eftirfylgnisskýrslu sem kom út 2023 kom fram að styrkja þyrfti stofnunina en enn sem komið er hefðu efndir mátt vera meiri. Við reynum að bregðast við með því að auka skilvirkni og sjálfvirkni innan stofnunarinnar og höfum verið í hraðri þróun í átt að rafrænu og stafrænu eftirliti, sjálfvirknivæðingu umsókna o.fl. Þar hafa áherslur okkar legið þrjú síðustu ár,“ segir Elín Björg.

Nýr dróni

Hlutverk Fiskistofu Íslands og t.d. Noregs eru að mörgu leyti mjög svipuð og talsvert samstarf þar á milli. Norðmenn hafa til að mynda verið með dróna í gæsluskipum, Kystvakten, um langt skeið. Íslendingar voru frumkvöðlar í að nota dróna við fiskveiðieftirlit, Færeyingar eru sömuleiðis með það til skoðunar að taka upp fiskveiðieftirlit með drónum ásamt því að Grænlendingar eru byrjaðir að einhverju leyti.

Fiskistofa leitaði álits Persónuverndar áður en stofnunin hóf drónaeftirlit og niðurstaða þeirrar stofnunar var sú að hún gerði ekki athugasemdir við eftirlitið eins og því var lýst á þeim tíma. Hún taldi að það félli undir eftirlitshlutverk Fiskistofu en frá því að eftirlitið hófst hafa lagaheimildir enn fremur verið styrktar.“ Elín Björg segir að til standi að efla drónaeftirlit með veiðum.

„Við erum komin með nýjan langdrægan dróna til viðbótar við átta smærri dróna og það stendur núna yfir þjálfun við notkun nýja drónans. Eftirlit með honum hefst fljótlega. Okkur hefur verið legið á hálsi fyrir að fylgjast eingöngu með smábátunum en við höfum bent á að þetta væru einungis fyrstu skrefin í eftirliti af þessu tagi. Nýi dróninn er mun langdrægari en aðrir drónar okkar og við getum því fylgst í auknum mæli með stærri skipunum. Hann hefur nokkurra klukkustunda flugþol og við gerum okkur vonir um að hann nái alla leið út á Halamið.“

Drónarnir eru ekki eingöngu notaðir við eftirlit með brottkasti heldur einnig við lax- og silungseftirlit og við eftirlit með ólöglegum netaveiðum í sjó. Þeir hafa einnig nýst vel við að greina hvort eldisfiskur hafi komist í ár þegar strok hefur komið upp úr kvíum.