Sú venja hefur lengi verið viðhöfð innan íslenska sjávarútvegsins að þegar sjómenn stinga sig á oddhvössum uggum karfa þá hafa þeir einfaldlega skorið í augu fiskjarins og borið slímið í.

Með því að nota slímið með þessum hætti hafa sjómenn komið í veg fyrir sýkingu og einnig hefur verkurinn orðið minni en ella og bólgusvörun hverfandi samanborið við þegar augnslím er ekki borið á sárið.

Þetta varð kveikjan að verkefni sem Friðrik Þór Bjarnason sjávarútvegsfræðingur hefur unnið að við Háskólann á Akureyri og samstarfi við Matís. Tilgangur þessa verkefnis var að varpa ljósi á hvort nýta megi slím úr augum karfa (Sebastes) til framleiðslu efna sem hafa eftirsóknarverða lífvirkni sem mögulega mætti nota í ýmsan iðnað, svo sem í snyrtivörur, sem fæðubót ofl.

Niðurstöður sýna að andoxunarvirkni er að finna í augnslími úr karfa og þá fyrst og fremst þegar 50% metanóllausn var notuð við útdráttinn og andoxunarvirkni mæld með svokölluðu DPPH prófi. Lágt próteininnihald reyndist í augnslíminu en hæst mældist það í augnslími sem var hitaþurrkað við 30°C. Með þeim aðferðum sem prufaðar voru reyndist augnslímið hvorki innihalda bakteríuhamlandi virkni né mældist í því β-karótín.

Sjá nánar á vef Matís.