Alls munu að óbreyttu18 uppsjávarskip frá níu fyrirtækjum halda til loðnuveiða á komandi vertíð. Fiskistofa hefur birt tilkynningu sína um loðnuveiðar íslenskra skipa þar sem úthlutun 626.975 tonna er sundurliðuð á grundvelli aflahlutdeildar, að teknu tilliti til frádráttar í 5,3% pott stjórnvalda.

Fyrirtækin níu eru Ísfélagið í Vestmannaeyjum, Síldarvinnslan í Neskaupstað og Brim sem fá á annað hundrað þúsund tonn úthlutað. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum, Samherji Ísland, Eskja á Eskifirði og Skinney – Þinganes á Höfn í Hornafirði, Gjögur á Grenivík og Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði. Rammi hf. er tíunda fyrirtækið sem fær úthlutað loðnukvóta sem er færður á Álsey VE, skip Ísfélagsins.

Úr 50 í 18

Veiðiheimildir einstakra skipa ráðast af heimildum útgerða og fjölda uppsjávarskipa sem þau hafa til umráða. Þannig eru sjö skip sem geta tekið yfir 50.000 tonn en flest skipin fá á milli tuttugu og tæplega fjörutíu þúsund tonn í sinn hlut.

Í þessu samhengi er vert að geta þess að skipum sem stunda veiðar á loðnu hefur fækkað mikið. Þau voru 50 á fiskveiðiárinu 1998/1999, en aðeins 15 áratug síðar og 19 fiskveiðiárið 2017/2018. Veiðar á loðnu voru ekki leyfðar fiskveiðiárin 2018/2019 og 2019/2020 en nú hillir undir að 18 skip annist þennan veiðiskap, eins og áður sagði.