Grænlenskir vísindamenn leggja til óbreytta veiði á rækju við Vestur-Grænland á næsta ári en mæla með stórfelldum niðurskurði í rækjuveiði við Austur-Grænland. Þetta kemur fram á vef Náttúrstofnunar Grænlands.
Ráðgjöfin við Vestur-Grænland 2014 hljóðar upp á 80 þúsund tonna hámarksafla í rækju. Þrátt fyrir sömu ráðgjöf og í ár hefur rækjustofninn þar aðeins gefið eftir. Ástand stofnsins er lakara en það var á 10. áratug síðustu aldar.
Rækjustofninn við Austur-Grænland er talinn vera í mjög slæmu ástandi. Grænlensku vísindamennirnir mæla aðeins með um 2.000 tonna veiði árið 2014 sem er 10.400 tonnum minna en ráðlagt var fyrir árið í ár. Reyndar hafa rækjuveiðar við Austur-Grænland verið að dragast saman frá árinu 2003 og voru ekki nema um 2.000 tonn á ári síðustu árin. Slæmt ástand rækjunnar stafar af aukinni þorskgengd við Austur-Grænland en þorskurinn étur drjúgt af rækjunni.