Í kjölfar Covid faraldursins varð veruleg röskun á flutningaleiðum skipa, siglingaáætlanir breyttust og skipin oft fullbókuð fram í tímann með tilheyrandi erfiðleikum. Við þetta bættist að stórar gámahafnir þurftu að grípa til þess ráðs að loka tímabundið, auk þess sem verð á flutningum hækkaði mikið í verði.
Unnar Jónsson forstöðumaður flutningasviðs Samherja segir að ástandið hafi batnað á undanförnum mánuðum, verð á flutningum sé þó hátt.
„Í stuttu máli má segja að hnökrar í flutningum, sem voru af völdum heimsfaraldursins séu nú að baki að mestu leyti. Það sem eftir stendur er að enn tekur eitthvað lengri tíma að koma gámum á áfangastað, sérstaklega til fjarlægari staða í Afríku og Asíu. Einnig er sú mikla hækkun sem varð á flutningskostnaði enn til staðar, ásamt því að olíuverð er enn mjög hátt og hefur sín áhrif á að viðhalda háu flutningsverði. Gámaskortur er sem betur fer ekki vandamál lengur og segja má að ástandið sé að verða eðlilegt aftur hvað það varðar.“
Gámahafnir aftur opnar
Stórar gámahafnir þurftu að loka tímabundið vegna fjölda fastra gáma á geymslusvæðum, svo sem Dalian í Kína.
„Sem betur fer voru þær hafnir sem lokuðu opnaðar fljótlega aftur. Við sluppum nokkuð vel frá þessum lokunum þegar þær skullu á, það eru engar slíkar fréttir á sveimi núna sem betur fer og því óhætt að álykta sem svo að gámar komist hraðar í gegnum gámavellina í losunarhöfnum.“
Hafnir lokaðar vegna stríðsins
Unnar segir stríðið í Úkraínu hafi veruleg áhrif. Til dæmis séu hafnir við Svartahafið lokaðar.
„Stríðið í Úkraínu er auðvitað helsti orsakavaldurinn að hærra olíuverði og hefur því mikil áhrif á flutningsverð en áhrifin eru einnig þau að við getum ekki sent skip með uppsjávarfisk inn í Svartahafið, eins og við höfum gert í gegnum árin. Á hverju ári höfum við sent nokkur skip, hvert með 4-5.000 tonn til Svartahafshafna í Úkraínu en þær eru allar lokaðar núna. Að sama skapi hefur meiri fiskur farið inn í Eystrasaltið, en fiskurinn fer nú þá leiðina til Úkraínu. Frystigeymslur í Póllandi og Litháen eru yfirfullar og erfitt að koma fiski til kaupenda af þeim sökum. Haustið er að vísu sá tími sem mikið af uppsjávarfiski fer inn í Eystrasaltið, en stríðið í Úkraínu hefur gert það að verkum að magnið er mun meira en venjulega.“
Unnar segir að á haustin sé alltaf ákveðið kapphlaup að koma fyrstu framleiðslunni strax inn á markaðinn.
„Þegar geymslur eru fullar, þá bæði vildum við stundum losa meira og hraðar hér heima og koma meiru og fyrir í geymslu erlendis. Svo má ekki gleyma því að þróunin á síðustu árum hefur verið sú að gámaflutningar hafa aukist á kostnað frystiskipa, sem lesta laus bretti um borð. Gámarnir gefa meiri sveigjanleika í magni og vörumeðferð er betri,“ segir Unnar.