ASÍ höfðar málið fyrir Félagsdómi vegna meintrar ólögmætrar vinnustöðvunar LÍÚ í júní á síðasta ári.

ASÍ krefst þess að viðurkennt verði að LÍÚ hafi brotið lög um stéttarfélög og vinnudeilur með því að beina því til félagsmanna sinna þann 2. júní 2012 að halda skipum sínum ekki til veiða eftir sjómannadag þann 3. júní 2012 og beina þeim þess í stað til Reykjavíkurhafnar 7. júní 2012 í mótmælaskyni gegn frumvörpum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

ASÍ gerir enga athugasemd við þann fund og viðurkennir fúslega rétt útgerðarmanna sem og annarra að hafa skoðanir og halda kröfum sínum á lofti. Ekki sé hins vegar ásættanlegt að nær allur fiskiskipafloti Íslands hafi verið stöðvaður í því samhengi.

Að mati ASÍ hafi þessi stöðvun flotans falið í sér ólögmæta vinnustöðvun eins og það hugtak er skilgreint í nefndum lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. ASÍ telur sig því knúið til að fá það viðurkennt með dómi að LÍÚ hafi með hátterni sínu brotið gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur enda hafi aðgerðir þeirra valdið almennu tjóni fyrir samfélagið auk þess sem meginreglur um samskipti aðila á vinnumarkaði hafi verið brotnar.

Frá þessu er skýrt á vef ASÍ.