Efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar segir aflaskráningu norskra útgerða verulega ábótavant. Meira en 90 prósent líkur séu á því að útgerðir og sjómenn skrái aflabrögðin rangt.

Þetta kemur fram í áhættumati stofnunarinnar, sem birt var á mánudaginn. Töluverð umfjöllun hefur orðið um þetta í norskum fjölmiðlum síðustu daga, þar á meðal í Fiskeribladet.

Norskir útgerðarmenn hafa gagnrýnt þetta mat harðlega.

„Það mætti halda, ef marka má fyrirsagnir fjölmiðla, að það sé mafía sem stjórni norskri útgerð,“ hefur Fiskeribladet eftir Kåre Heggebø, leiðtoga Norges Fiskarlag, samtökum norskra útgerðarmanna. Hann segir af og frá að sú sé reyndin. Þetta sé algjörlega út í bláinn.

„Ef efnahagsbrotadeildin lýsir þessu rétt þá hljóta eftirlitsstofnanir að hafa sofið værum blundi áratugum saman,“ segir hann.

„Við erum ekkert að fullyrða að greinin sé glæpsamleg, heldur séu það einstaklingar og samanlagt sé svo mikið um það að við verðum að takast á við það,“ hefur Fiskeribladet eftir Pål Lønseth, yfirmanni norsku efnahagsbrotalögreglunnar.

Hann fullyrðir að þegar fiski sé landað í Noregi sé aflamagnið kerfisbundið vanskráð. Hann sagði lögbrot af þessu tagi tíðkast í allri virðiskeðjunni og stefnt sé að því að höfða fleiri mál.

„Við viljum leggja okkaf af mörkum til þess að greinin starfi með löglegum og sjálfbærum hætti.“