Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson hélt af stað í gær til loðnuleitar og er reiknað með að leiðangurinn standi í 6-7 daga. Leitað verður út af Norðurlandi og og Vestfjörðum og reynt að komast sem lengst inn að hafíssvæðunum við Grænland.
Í tveggja vikna loðnuleiðangri Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar dagana 19. janúar til 2. febrúar voru veður ekki hagstæð og hafísinn torveldaði mælinguna þannig að ekki þótti rétt að gefa út lokaráðgjöf fyrr en búið væri að skoða svæðið betur.
Niðurstöður loðnumælinga í leiðangrinum bentu þó til þess að lokaráðgjöf myndi verða um 800 þúsund tonn, sem er um 100.000 tonnum minna en bráðabirgðaráðgjöfin frá 1. október. Hún hljóðaði upp á 904.200 tonn, sem gaf íslensku skipunum 662.064 tonn.
Nú eru aðstæður til leitar á norðvesturmiðum betri, veðrið virðist ætla að verða skaplegt en óvissa er enn um hvort hafísinn gefi nógu mikið eftir.
Stefnt er að því að gefa út endanlega ráðgjöf eftir að Árni kemur í land og niðurstöður fengnar, eða um miðja næstu viku.