Kælismiðjan Frost á Akureyri hefur lokið við hönnun kæli- og frystikerfis í risatogara VI Lenin-útgerðarinnar á Kamtsjatka skaga í Austur-Rússlandi. Ásamt því er fyrirtækið að hanna kerfi fyrir tíu nýja togara Norebo-útgerðarinnar sem byggðir eru eftir hönnun Nautic. Samhliða þessu er verið að hanna kælibúnað fyrir væntanlegan ísfisktogara Ramma á Siglufirði sem smíðaður verður í Tyrklandi, einnig eftir hönnun Nautic.

Í byrjun árs 2020 skilaði Frost af sér stóru verkefni fyrir fiskiðjuver í Arnold’s Cove á Nýfundnalandi sem er hið stærsta í Kanada. Kerfið frá Frosti var 1,5 megavött í frystiafli sem er svipað og í nýrri landvinnslu Samherja á Dalvík sem Frost hannaði einnig og smíðaði. Verksmiðjan hefur nú verið í rekstri í rúmt eitt ár og eru niðurstöðurnar vægast sagt athyglisverðar.

„Verkefnið unnum við í miðjum Covid-faraldrinum. Kerfið er að skila af miklum sparnaði og hagræðingu í rekstri þessa fyrirtækis. Við settum þarna upp frystikerfi og varmadælur. Við endurnýtum orkuna frá frystikerfinu til húshitunar. Það eru níu mánuðir frá því þessi kerfi voru tekin í notkun og meðaltals sparnaður í raforku er um 24%. Eigendur eru mjög ánægðir með afraksturinn og þetta spyrst út víða okkur til hagsbóta,“ segir Guðmundur Hannesson, framkvæmdastjóri.

Stærsta frystiskip Rússlands

Risatogarinn VI Lenin verður stærsta frystiskip sem Rússar hafa smíðað. Það er 121 metri á lengd og frystigetan er 450 tonn á sólarhring. Frost og fleiri fyrirtæki innan KNARR-samstæðunnar, Skaginn 3X og Rafeyri, smíðuðu stóra landvinnslu fyrir sömu aðila fyrir einu og hálfu ári síðan. Í framhaldinu var samið við Frost um hönnun og smíði á frystikerfinu í risatogarann. Skipið sjálft er hannað af finnska fyrirtækinu Wärtsilä, sem er ekki síst þekkt fyrir skipavélaframleiðslu. Frystikerfið frá Frost er hannað á Íslandi og verður framleitt á Íslandi og víða í Evrópu. Uppsetningaferlið hefst væntanlega næsta sumar og mun það taka um eitt ár. Þetta er verkefni upp á rúman einn milljarð ÍSK sem mun taka um 3-4 ár. Skipið verður við veiðar í Kyrrahafi á uppsjávarfisk, lax og öðrum bolfisktegundum. Skipið verður smíðað í Yantar Skipasmíðastöðinni í Kalíningrad og stefnt er að afhendingu þess árið 2024.

„Svona skip kallar á gríðarlega frystigetu. Svo málið sé sett í samhengi þá var frystigeta Síldarvinnslunnar í nýja frystihúsinu árið 1996 um 400 tonn á sólarhring. Það var þá stærsta uppsjávarhúsið á Íslandi. Í risatogaranum verður frystigetan 450 tonn á sólarhring. Þess skal þó getið að frystigeta Síldarvinnslunnar er nú orðin tæp 1.000 tonn á sólarhring í dag,“ segir Guðmundur.

  • Rannís styrkti verkefnið til áframhaldandi rannsókna og þá í mannfólki síðasta vor. Styrkurinn var síðan dreginn til baka. Ástæðan var sú að sótt hafði verið um styrkinn í nafni Lýsis hf. en samkvæmt úthlutunarreglum er fyrirtækið of stórt og með of mikla veltu til að hljóta styrk af þessu tagi sem ætlaðir eru litlum og meðalstórum sprotafyrirtækjum.

Frystiskipin við Íslandsstrendur frysta að jafnaði frá 40-170 tonn á sólarhring og stóru hollensku uppsjávarskipin 250-300 tonn. Frost er að hanna í skipið mjög flókið og stórt ammóníak-CO² Cascade frystikerfi þar sem áhersla er lögð á stuttan frystitíma með mikilli frystigetu til að auka gæði afurðanna.

„Við erum líka að velja vistvæna kælimiðla fyrir lestarnar í skipinu til þess að tryggja starfsöryggi sjómannanna. Um er að ræða þriggja þrepa frystikerfi sem hefur mismunandi tilgang. Í skipinu verður afli kældur, og lagður í krapa áður en hann er frystur  áður en hann er siðan settur í frysti lestina. Krapavélarnar koma frá Skaganum 3X. Það samstarf kom í kringum KNARR og það á einnig við um verkþætti Naust Marine sem eru með spil, dekkbúnað og krana í risatogarann. Þetta er með stærri verkum sem við hjá Frost höfum tekið að okkur en það allra stærsta var þegar við byggðum í Færeyjum fyrir tveimur árum stærsta uppsjávarhús í heimi í samstarfi við Skagann 3X og Rafeyri,“ eftir það höfum við síðan byggt tvær minni sambærilegar landverksmiðjur í Rússlandi segir Guðmundur.

Spennandi lausn í nýtt skip Ramma

Rússneski útgerðarrisinn Norebo er að láta smíða fyrir sig tíu togara eftir hönnun íslenska skipahönnunarfyrirtækisins Nautic. Frost hefur lokið hönnun og afhendingu á kælikerfum fyrir sex af þessum tíu skipum. Ráðgert er að klára hönnun og afhendingu á búnaði fyrir hin skipin fjögur sem eru með öðru sniði á næsta ári.  Reiknað er með að fyrsta skipið í þessu tíu skipa raðsmíðaverkefni verði tilbúið til veiða næsta vor og það taki síðan önnur tvö – þrjú ár að koma skipunum öllum í rekstur.

Frost hefur unnið í talsverðan tíma með Ramma á Siglufirði að útfærslu á kælibúnaði fyrir nýjan ferskfisktogara fyrirtækisins sem smíðaður verður eftir teikningum Nautic hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Skipið verður með svokölluðu Enduro Bow stefni sem er einkennismerki nokkurra íslenskra skipa sem Nautic hefur hannað. Það verður 48 metra langt, 14 metra breitt og getur borið um það bil 185 tonn af afla í 490 körum sem eru 440 lítra.

„Úr varð gríðarlega skemmtileg lausn sem verður spennandi að útfæra. Klaki verður með vinnslulínuna á millidekki og það sem allt gengur út á er að meðferð aflans og að halda gæðum hans. Þar snýst allt um að koma fiskinum eftir blóðgun í eins hraða niðurkælingu og unnt er og halda kælingunni stöðugri eftir það. Það verða þrjár kælileiðir allt frá móttöku og ofan í lest sem byggjast á lausnum frá okkur.“

Stefnt er að afhendingu á búnaði til skipasmíðastöðvarinnar haustið 2022 og uppsetning á honum er ráðgerð í upphafi árs 2023.

Frost var ennfremur að ljúka við viðamikla endurnýjun á frystikerfinu um borð í Arnari HU fyrir Fisk Seafood á Sauðarkróki. Skipt var út R-22 kerfi fyrir  tveggja þrepa kerfi þar sem hlutfall HFC miðils er komið niður í ca 10% á móti ammoníakvatni (NH4OH). Frost hefur um árabil haft að markmiði að lámarka kælimiðilsmagn á kerfum og byrjaði að nota brine miðla til þess árið 1994 um borð í Frosta ÞH.  Með þessu móti er öryggi sjómanna betur tryggt ásamt að  HFC kælimiðilsmagnið minnkar um ca 90%.

Nú er Arnar búinn að vera á veiðum í nokkrar vikur og eru menn ánægðir með þær breytingar sem hafa verið gerðar. Frystitími er styttri og jafnari  sem hefur leitt til aukinna afkasta og lækkunar orkukostnaðar á hvert fryst kg.