Það er ekki ofsagt að uppbygging innan rússnesks sjávarútvegs er á fleygiferð. Virðist viðeigandi að tala um byltingu en á þessum tímapunkti eru 107 skip í smíðum auk 24 vinnsluhúsa. Kemur þetta til viðbótar við þau nýju skip og vinnslur sem hafa verið teknar til notkunar síðustu ár.
Að stórum hluta er þetta birtingarmynd fjárfestingaráætlunar stjórnvalda í Rússlandi en eins og þekkt er hafa íslensk tæknifyrirtæki komið ríkulega að því að búa ný skip og vinnslur hátæknibúnaði.
Þetta kom fram í erindi sem Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu, flutti á Sjávarútvegsráðstefnunni North Atlantic Seafood Forum (NASF) fyrr í sumar.
- Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu. Aðsend mynd
„Í augnablikinu eru í byggingu 56 ný fiskiskip auk 35 krabbaveiðiskipa sem falla undir fjárfestingarátak stjórnvalda. Auk þeirra eru nokkur skip í byggingu til viðbótar svo í heildina eru 107 skip sem hvert af öðru halda til veiða á næstu tveimur til þremur árum,“ sagði Sturlaugur í erindi sínu og bætti við að 24 vinnslur væru í pípunum á sama tíma.
„Það eru því að verða miklar breytingar sem koma til með að hafa áhrif á vöruframboð frá Rússlandi á næstu árum. Möguleikar til framleiðslu verða mun sveigjanlegri en áður,“ sagði hann og nefndi flakavinnslu sem dæmi. Telur hann að mjög spennandi tímar séu nú uppi í rússneskum sjávarútvegi.
Óvissa ríkjandi
Norebo er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Rússlands. Norebo gerir út níu togara á alaskaufsa sem hefur verið fyrirtækinu mikilvæg tegund. Fyrirtækið er að endurnýja skipaflota sinn með tíu nýsmíðum sem byggðar eru á teikningum Nautic Russia, dótturfyrirtæki Nautic á Íslandi. Fjögur skipanna verða gerð út á alaskaufsa og sex á þorsk. Nýlega var gengið frá samningum um smíði á fjórum nýjum línuskipum fyrir Norebo sem gerir út alls 45 fiskiskip. Heildarafli skipa Norebo árið 2020 var um 710 þúsund tonn, eins og kom fram í viðtali Fiskifrétta við Sturlaug fyrir skemmstu.
Sturlaugur fjallaði um horfur komandi missera hjá Norebo í erindi sínu og ræddi sérstaklega um alaskaufsa og þorsk. Veiðar á alaskaufsa ættu að hans mati að verða svipaðar og í fyrra, þrátt fyrir að veiðiheimildir séu nokkuð meiri. Koma þar til ýmsar áskoranir vegna heimsfaraldursins, og ekki síst markaðsmál í Kína sem er stór kaupandi á afurðum úr alaskaufsa. Einnig eru truflanir í flutningum sem gætu ýtt fiskverði upp.
Hvað þorskinn varðar benti Sturlaugur á að Barentshafsþorskur er stór hluti af öllum þorski sem er á markaðnum. Það hafi ekki hjálpað rússneskum fyrirtækjum að þurfa að hætta veiðum fyrr en venjulega í norsku lögsögunni, vegna meðafla í ufsa. Þar fæst stærri fiskur en í rússnesku lögsögunni sem er eftirsóttur.
Á sama tíma sagði Sturlaugur að eftirspurn á þorski á ólíkum mörkuðum sé vaxandi. Fish&Chips markaðurinn í Bretlandi var merkjanlega sterkur á meðan faraldurinn hefur geysað og eftirspurn er mikil. Nefndi hann einnig að neytendur hafa eldað mikið af fiski heima hjá sér í faraldrinum og telur hann líklegt að sú staðreynd gæti leitt til aukinnar fiskneyslu þegar til framtíðar er litið.