Framkvæmdastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi andmæla í dag þátttöku Íslands í þvingunaraðgerðum gegn Rússum vegna framgöngu þeirra á Krímskaga og í Úkraínu.Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri samtakanna, skrifar bréf í Morgunblaðið. Þar segir hann að vonir hafi staðið til að viðskiptaþvinganir ESB gegn Rússum myndu falla niður í lok næsta mánaðar. Þar sem sú hafi ekki orðið raunin sé eðlilegt að Íslendingar fari yfir stöðuna, vegi og meti hagsmuni og taki ákvarðanir í framhaldi af því. Kolbeinn segir að Íslendingar geti komið skoðunum sínum á framfæri við Rússa án þess að skaða íslenskt efnhagslíf, því verði ákvörðun um framhald stuðnings við þvingunaraðgerðirnar að vera vel ígrunduð.

Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, lýsir sömu skoðun í aðsendri grein í Fréttablaðinu. Hann segir þátttöku Íslendinga í þvingunaraðgerðunum aðeins vera táknrænar en hafi reynst íslenskum hagsmunum mjög skaðlegar. Auk þess að setja innflutningsbann á íslenskar sjávarútvegsafurðir hafi Rússar gefið í skyn fyrr í mánuðinum að þeir myndu segja upp Smugusamningnum sem hafi gert Íslendingum kleift að veiða átta þúsund tonn af þorski.

Erfiðasta mál utanríkisráðherra

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í viðtali við DV um síðustu helgi að þetta mál væri það erfiðasta sem hann hefði tekist á við í ráðherratíð sinni. Hann vísaði þar bæði til ákvörðunar Rússa um að innflutningsbann til að svara viðskiptaþvingunum sem Íslendingar taka þátt í og viðbrögðum hérlendis. „Auðvitað eru miklir hagsmunir undir á Íslandi. Þetta kemur illa við ákveðin byggðarlög að einhverju leyti en er samt ekki jafn slæmt og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi vildu meina í upphafi. Það er bara þannig að við getum ekki látið prinsippafstöðu víkja fyrir stundarhagsmunum, þó að þeir séu verðmiklir. Við erum smáríki og leggjum okkar upp úr því að alþjóðlegir sáttmálar og samningar haldi."

Greint er frá þessu á vef RÚV.