Tveir sjómannsbræður frá Hull sem voru hér í nokkurra daga heimsókn fyrr í febrúar til að minnast langafa síns sem fórst í Halaveðrinu árið 1925 eru afar ánægðir með dvölina hér og móttökur Íslendinga.
„Langafi minn Fred Bartle, var yfirvélstjóri á Field Marshal Robertson sem fórst í miklu óveðri vestur af Íslandi þann 7. febrúar 1925,“ segir Michael Bartle, sá eldri af þeim bræðrum. Með honum í för var Stephen bróðir hans.
Field Marshal Robertson hvarf í Halaveðrinu með öllum um borð, sex manna breskri áhöfn og 29 íslenskum sjómönnum. Í sama veðri fórst íslenski togarinn Leifur heppni og með honum allir um borð, 33 íslenskir sjómenn.
„Þrátt fyrir leit næstu vikurnar fannst hvorki tangur né tetur af skipunum,“ segir Michael.
Minningarskjöldur í Hafnarfirði
Michael segir að útgerð Field Marshal Robertson, Hellyer bræður í Hull, hafi staðið fyrir því að settur var upp í Hafnarfjarðarkirkju minningarskjöldur vegna þessa hörmulega atburðar.

„Sem börn þá vissum við Steve af þessum minningarskildi þótt ég muni ekki eftir því að afi okkar eða faðir okkar hafi talað um þetta stórslys. Kannski var það of erfitt fyrir afa sem var aðeins nítján ára þegar hann missti föður sinn. Og pabbi hafði ekki tækifæri til að hitta langafa því hann fæddist átta árum eftir þennan atburð.
Að sögn Michaels vildi svo til að mágur hans fór til Íslands með eiginkonu sinni árið 2018. Hann hafi nefnt minningarskjöldinn í Hafnarfjarðarkirkju við þau.
„Svo heppilega vildi til að þau áttu aukadag í fríinu og lögðu leið sína að kirkjunni. Þegar þau nálguðust leit út fyrir að kirkjan væri lokuð og er þau voru um það bil að snúa við heyrðu þau að það var byrjað að spila á orgelið. Þeim tókst að komast inn og náðu að vekja athygli organistans.Í ljós kom að um var að ræða varaorganista sem hafði fyrir tilviljun komið í kirkjuna til að æfa sig. Þegar þau sögðu honum ástæðu heimsóknar sinnar leyfði hann þeim með glöðu geði að skoða minningarskjöldinn og kirkjuna og taka myndir,“ lýsir Michael þessari heimsókn fyrir sjö árum.
Rauð viðvörun fyrir Íslandsför
„Þegar þau komu heim og sýndu mér myndirnar sáði það fræjum að minni eigin heimsókn. Eftir að hafa rætt við Steve bróður minn töldum við viðeigandi að við myndum heiðra minningu langafa okkar á 100 ára ártíð andláts hans.“
Kveðst Michael hafa haft samband við Hafnarfjarðarkirkju í mars í fyrra. Erindi hans hafi verið sent þaðan til Egils Þórðarsonar, fyrrverandi loftskeytamanns, sem þeir bræður hafi síðan verið í tengslum við varðandi skipulagningu og framkvæmd Íslandsheimsóknarinnar.
Eins og einni öld fyrr setti veðrið á Íslandi strik í reikning Bartle manna.
„Við fórum frá Manchester þann 5. febrúar og sáum að flugi eftir það til Keflavíkur hafði verið aflýst. Við nánari skoðun sáum við að búist var við miklu óveðri síðar þennan dag. Eftir tiltölulega þægilegt flug og lendingu í Keflavík komumst við að því að það voru tvö skráð flug þar til viðbótar á eftir okkar flugi og eftir það lokuðu yfirvöld flugvellinum næstu 24 klukkustundirnar. Þetta var vissulega mikil heppni, svo það hlýtur einhver að hafa vakað yfir okkar. Gefin hafði verið út rauð viðvörun fyrir Ísland sem er sjaldgæft,“ segir Michael.
Að sögn Michaels er það kaldhæðnislegt að í dag geti menn séð fyrir slík óveður og búið sig undir þau, ólíkt sjómönnum fyrri tíma sem fórust í illviðrum sem skullu á þá óviðbúna.
Óðinn stórfenglegt skip
Michael segir að eftir að þeir bræður hafi komið sér fyrir á hóteli í Reykjavík hafi þeir skoðað þessa fallegu borg og ýmsa staði í henni í rigningu og slyddu. Næsta dag hafi veðrið verið betra og Vilberg Magni Óskarsson, fyrrverandi skipherra á Óðni og formaður Hollvinasamtaka Óðins, hafi sótt þá á hótelið til að skoða gamla varðskipið.

„Ég verð að segja að Óðinn er stórfenglegt skip. Að það sé orðið 65 ára og enn með haffæri er vitnisburður um þá kunnáttu og miklu vinnu sem sjálfboðaliðarnir hafa lagt þar fram,“ segir Michael.
Eftir skoðunarferð um Óðin hafi þeim verið boðnar veitingar og tækifæri gefist til að spjalla við marga fyrrverandi sjómenn og fleiri um þorskastríðin.
Egill Þórðarson hafi um borð í Óðni kynnt bræðurna fyrir Agnari Jónssyni skipasmiði sem, eins og fram kom í Fiskifréttum í síðustu viku, hefur rannsakað og skráð breska og aðra erlenda skipskaða hér við land. Agnar hafi fært þeim tvö eintök af korti með staðsetningum 150 breskra togara sem fórust við Ísland fram til ársins 1975. Þar að baki liggi geysimikil vinna.
Íslenskt kort til sýnis í Hull
„Við erum mjög þakklátir fyrir þessa gjöf. Eftir að við komum heim aftur ánafnaði Steve sínu korti til Hull Fisherman’s Heritage miðstöðvarinnar. Þar verður kortið rammað inn og gert aðgengilegt almenningi. Sjálfur ætla ég að gefa mitt kort til Arctic Corsair sýningarmiðstöðvarinnar þegar hún opnar fljótlega,“ segir Michael.

Að kvöldi þessa dags segir Michael þá bræður hafa rölt út og fengið sér kvöldverð, þorsk og franskar. Morguninn eftir hafi þeir gengið niður í bæ og skoðað gömlu höfnina áður en Vilberg Magni hafi sótt þá til að fara í Hafnarfjarðarkirkju.
„Í kirkjunni vorum við kynntir fyrir séra Jónínu og séra Þorvaldi sem önnuðust stutta athöfn fyrir okkur frammi fyrir um fjörutíu manna söfnuði. Við gátum lagt blómaskreytingu til minningar um langafa okkar og skipsfélaga hans,“ segir Michael og tekur fram að skreytingin hafi verið í tiltölulega góðu ásigkomulagi eftir ferðalagið frá Hull. „Hvernig okkur tókst það mun ég aldrei vita.“
Bræðurnir kveiktu á kerti í minningarskyni og segir Michael þá hafa fengið tækifæri til að segja nokkur orð um þá þýðingu sem heimsóknin hefði fyrir fjölskylduna og um þá hefð sem sjómennskan væri í fjölskyldunni.
Munum snúa aftur
„Við þökkuðum þeim sem gerðu ferð okkar til Íslands svo eftirminnilega. Ég er viss um að forfeður okkar hefðu orðið stoltir af því sem við gerðum,“ segir Michael.

Á leiðinni til baka hafi sjálfboðaliði að nafni Markús Alexandersson ekið þeim til baka á hótelið með viðkomin á Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna í Laugarási. Þar hafi þeim verið sýnd tvö líkön af togurum sem smíðaðir voru í Hull.
„Svo sannarlega stórmerkilegur staður þar sem annast er um þá sem eldri eru,“ segir Michael um Hrafnistu.
Bræðurnir óku síðan út á Keflavíkurflugvöll á laugardeginum í kjölfar snjóruðningstækja að sögn Michaels. „Þetta var afar ánægjuleg og tilfinningarík ferð til Íslands og við þökkum öllu fólkinu sem við hittum fyrir það sem það lagði á sig fyrir okkur. Konan mín segir að við munum snúa aftur.“
Michael og Stephen bróðir hans, sem fæddir áru 1956 og 1957, eru fjórða kynslóð sjómanna í Bartle fjölskyldunni. Sá fyrsti var áðurnefndur langafi þeirra, Fred Bartle. sem fæddur var árið 1883 og fórst í Halaveðrinu 1925 sem fyrr segir.
„Ekkert barna okkar hefur nokkra löngun til þess að fara til sjós þannig að sjómennsku fjölskyldu okkar virðist vera að ljúka. Fjórar kynslóðir og aðeins einn farist til sjós, við verðum að telja okkur heppin,“ segir Michael Bartle.
