Makrílkvóti Íslendinga er 155 þúsund tonn í ár og hafa 143 skip fengið leyfi til að veiða hann. Þeirra á meðal er nær allur íslenski togaraflotinn eins og hann leggur sig, samkvæmt samantekt Fiskifrétta.
Kvótanum er skipt í fjóra potta. Uppsjávarskip með veiðireynslu fá úthlutað megninu af kvótanum, eða alls 112 þúsund tonnum. Í þeim flokki er Vilhelm Þorsteinsson EA með mestar aflaheimildir, eða um 14 þúsund tonn.
Annar stærsti potturinn er 33 þúsund tonn og skiptist hann á 31 frystitogara. Í hlut hvers skips koma um 900 tonn en skip með mikla frystigetu fá tvöfaldan skammt, um 1.800 tonn.
Þriðji potturinn er 7 þúsund tonn og skiptist hann á 53 skip, þeirra á meðal eru ísfisktogarar. Hver þeirra fær aðeins að veiða 145 tonn.
Fjórði potturinn er 2.500 tonn fyrir króka og línu. Þar gilda ólympiskar veiðar. Um miðja vikuna höfðu 35 skip fengið leyfi í þessum flokki.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum sem koma út í dag.