Mikill áhugi er á Íslensku sjávarútvegssýningunni 2014 sem haldin verður í Kópavogi í þessari viku, nánar tiltekið dagana 25.-27. september. Að sögn Marianne Rasmussen-Couling sýningarstjóra er allt sýningarrýmið uppselt enda þótt sýningarbásarnir séu 5% fleiri nú en á síðustu sýningu. Flatarmál sýningarinnar er 13.000 fermetrar, tvær stórar sýningarhallir og útisvæði, auk ráðstefnusala og fundarherbergja. Sýnendur eru alls um 500 og sýningarbásar 250 og hafa aldrei verið fleiri. Gestir á síðustu sjávarútvegssýningu voru rúmlega 13.500 talsins frá 52 löndum.
Þrjár ráðstefnur
Í tengslum við Íslensku sjávarútvegssýninguna verða haldnar þrjár ráðstefnur. Í fyrsta lagi ráðstefna sem ber yfir skriftina „Hámarkaðu afraksturinn“ og fjallar um fullnýtingu sjávarafurða en að henni stendur Matís í samvinnu við Háskóla Íslands. Í öðru lagi ráðstefna um samstarf og deilumál í sjávarútvegi sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skipuleggur og kostuð er af norrænu ráðherranefndinni. Og í þriðja lagi ráðstefnan Strandveiðar og strandsamfélög við Norður-Atlantshaf sem skipulögð er af Matís og einnig kostuð af norrænu ráðherranefndinni.
Íslensku sjávarútvegsverðlaunin
Í tengslum við Íslensku sjávarútvegssýninguna verða Íslensku sjávarútvegsverðlaunin veitt í sjötta sinn en að þeim koma sjávarútvegsritin Fiskifréttir og World Fishing Magazine. Verðlaunin eru veitt þeim aðilum sem teljast hafa skarað fram úr á ýmsum sviðum sjávarútvegs, bæði í veiðum og vinnslu, og eins í framleiðslu tækjabúnaðar fyrir atvinnugreinina. Valinn er framúrskarandi skipstjóri, útgerð og fiskvinnsla og einnig framleiðendur veiðarfæra og tækjabúnaðar sem vakið hafa athygli fyrir nýjungar og frumkvöðlastarf. Verðlaunin til erlendra aðila lúta eingöngu að framleiðendum veiðarfæra og tækja.
Nánar um sýninguna í Fiskifréttum.