„Það er búið að gera allt klárt fyrir loðnuvertíð sem vonandi verður. Svo það er frekar rólegt hjá okkur í augnablikinu,” segir Ingi Freyr Ágústsson, rekstrarstjóri Hampiðjunnar í Vestmannaeyjum. Sömu sögu er að segja hjá Egersund Ísland austur á Eskifirði; þar er allt að verða klárt og menn vilja veðja á að loðna finnist.

„Við sjáum um Vinnslustöðina og þeir eru með fjórar nætur. Við kláruðum síðustu nótina núna í byrjun janúar og byrjuðum reyndar óvenju snemma því við tókum fyrstu nótina inn í júní í fyrra en vanalega er það ekki gert fyrr en í september,“ segir Ingi Freyr.

Hann segir að með öðrum verkefnum taki það góðan mánuð að ganga frá einni nót en nú sé fullkomin óvissa um hvort yfirleitt verði loðnuvertíð. Hjá Hampiðjunni starfa sex manns í fullu starfi og einn í hálfu starfi.

Ingi Freyr Ágústsson. Mynd/Óskar
Ingi Freyr Ágústsson. Mynd/Óskar
© Óskar P. Friðriksson (Óskar P. Friðriksson)

Nótavinnan heldur uppi vinnu

„Það fer alls ekki vel í okkur. Nótavinnan heldur uppi okkar vinnu í líklega fimm mánuði á ári. Ef þessar nætur fara ekki í sjó núna þá gera þær það ekki fyrr en á árinu 2025 ef að líkum lætur. Á meðan verður verkefnastaðan hjá okkur ekki alltof góð. Við búum að vísu svo vel að flest uppsjávarskipin hérna í Eyjum eru með troll frá okkur og svo sem talsverð vinna í að viðhalda þeim en það þarf eitthvað meira með. En það yrði talsvert högg ef ekki verða loðnuveiðar, ekki bara fyrir okkur heldur alla; öll þjónustufyrirtæki og verslanir líka. Við vonum að þeir hjá Hafró finni eitthvað í næsta leiðangri.“

Hafrannsóknastofnun ráðgerir að halda aftur til mælinga í febrúar með þá von að loðnan verði gengin undan ísnum fyrir norðvestan land eða að ísinn hafi hopað. Það magn sem mældist nú af fullorðinni loðnu í síðasta leiðangri var aðeins um fjórðungur þess sem mældist í haust.

Loðnubrestur erfiður fyrir þjónustufyrirtækin

Hjá Egersund Ísland á Eskifirði varð Stefán Ingvarsson framkvæmdastjóri fyrir svörum. Þar voru menn að klára síðustu loðnunæturnar. Egersund hefur einnig talsvert þjónustað norsku loðnuskipin sem hafa komið hingað í endaðan janúar og fram í miðjan febrúar til veiða þannig að verði engin loðnuveiði missir fyrirtækið líka þann spón úr sínum aski.

„Þetta kemur samt ekkert harkalega við okkur fyrr en í haust því við verðum ekki í nótaviðgerðum á þeim tíma ef þær verða ekki notaðar í vetur,“ segir Stefán.

Stefán Ingvarsson. Mynd/gugu
Stefán Ingvarsson. Mynd/gugu

Hann segir loðnubrest hafa sérstaklega þung áhrif á þau fyrirtæki sem þjónusta uppsjávarskipin. Egersund Ísland hefur sinnt viðhaldi á nótum uppsjávarskipanna á Eskifirði; Aðalsteins Jónssonar, Jóns Kjartanssonar og Guðrúnar Þorkelsdóttur, og einnig fyrir uppsjávarskip í Neskaupstað og á Fáskrúðsfirði.

„Við verðum klárir þegar þeir finna stóru torfurnar. Það var mikill ís yfir vestursvæðinu í síðasta leiðangri og kannski ekki allt að marka. Svo vill loðnan oft láta bíða eftir sér og ekki var hún stundvís á síðustu vertíð. Ég er því ekki alveg dottinn í þunglyndi út af þessu,“ segir Stefán tiltölulega léttur í lund.

„En verði loðnubrestur verðum við ekki í vinnu við loðnunætur næsta haust. Þá liggur líka fyrir að finna okkur eitthvað annað að gera,“ segir Stefán.

Egersund Ísland, sem er fyrirtæki í norskri eigu, er umsvifamikið í þjónustu við sjókvíaeldi og hefur sá þjónustuþáttur aukist mikið undanfarin ár í starfsemi fyrirtækisins.

„Það er búið að gera allt klárt fyrir loðnuvertíð sem vonandi verður. Svo það er frekar rólegt hjá okkur í augnablikinu,” segir Ingi Freyr Ágústsson, rekstrarstjóri Hampiðjunnar í Vestmannaeyjum. Sömu sögu er að segja hjá Egersund Ísland austur á Eskifirði; þar er allt að verða klárt og menn vilja veðja á að loðna finnist.

„Við sjáum um Vinnslustöðina og þeir eru með fjórar nætur. Við kláruðum síðustu nótina núna í byrjun janúar og byrjuðum reyndar óvenju snemma því við tókum fyrstu nótina inn í júní í fyrra en vanalega er það ekki gert fyrr en í september,“ segir Ingi Freyr.

Hann segir að með öðrum verkefnum taki það góðan mánuð að ganga frá einni nót en nú sé fullkomin óvissa um hvort yfirleitt verði loðnuvertíð. Hjá Hampiðjunni starfa sex manns í fullu starfi og einn í hálfu starfi.

Ingi Freyr Ágústsson. Mynd/Óskar
Ingi Freyr Ágústsson. Mynd/Óskar
© Óskar P. Friðriksson (Óskar P. Friðriksson)

Nótavinnan heldur uppi vinnu

„Það fer alls ekki vel í okkur. Nótavinnan heldur uppi okkar vinnu í líklega fimm mánuði á ári. Ef þessar nætur fara ekki í sjó núna þá gera þær það ekki fyrr en á árinu 2025 ef að líkum lætur. Á meðan verður verkefnastaðan hjá okkur ekki alltof góð. Við búum að vísu svo vel að flest uppsjávarskipin hérna í Eyjum eru með troll frá okkur og svo sem talsverð vinna í að viðhalda þeim en það þarf eitthvað meira með. En það yrði talsvert högg ef ekki verða loðnuveiðar, ekki bara fyrir okkur heldur alla; öll þjónustufyrirtæki og verslanir líka. Við vonum að þeir hjá Hafró finni eitthvað í næsta leiðangri.“

Hafrannsóknastofnun ráðgerir að halda aftur til mælinga í febrúar með þá von að loðnan verði gengin undan ísnum fyrir norðvestan land eða að ísinn hafi hopað. Það magn sem mældist nú af fullorðinni loðnu í síðasta leiðangri var aðeins um fjórðungur þess sem mældist í haust.

Loðnubrestur erfiður fyrir þjónustufyrirtækin

Hjá Egersund Ísland á Eskifirði varð Stefán Ingvarsson framkvæmdastjóri fyrir svörum. Þar voru menn að klára síðustu loðnunæturnar. Egersund hefur einnig talsvert þjónustað norsku loðnuskipin sem hafa komið hingað í endaðan janúar og fram í miðjan febrúar til veiða þannig að verði engin loðnuveiði missir fyrirtækið líka þann spón úr sínum aski.

„Þetta kemur samt ekkert harkalega við okkur fyrr en í haust því við verðum ekki í nótaviðgerðum á þeim tíma ef þær verða ekki notaðar í vetur,“ segir Stefán.

Stefán Ingvarsson. Mynd/gugu
Stefán Ingvarsson. Mynd/gugu

Hann segir loðnubrest hafa sérstaklega þung áhrif á þau fyrirtæki sem þjónusta uppsjávarskipin. Egersund Ísland hefur sinnt viðhaldi á nótum uppsjávarskipanna á Eskifirði; Aðalsteins Jónssonar, Jóns Kjartanssonar og Guðrúnar Þorkelsdóttur, og einnig fyrir uppsjávarskip í Neskaupstað og á Fáskrúðsfirði.

„Við verðum klárir þegar þeir finna stóru torfurnar. Það var mikill ís yfir vestursvæðinu í síðasta leiðangri og kannski ekki allt að marka. Svo vill loðnan oft láta bíða eftir sér og ekki var hún stundvís á síðustu vertíð. Ég er því ekki alveg dottinn í þunglyndi út af þessu,“ segir Stefán tiltölulega léttur í lund.

„En verði loðnubrestur verðum við ekki í vinnu við loðnunætur næsta haust. Þá liggur líka fyrir að finna okkur eitthvað annað að gera,“ segir Stefán.

Egersund Ísland, sem er fyrirtæki í norskri eigu, er umsvifamikið í þjónustu við sjókvíaeldi og hefur sá þjónustuþáttur aukist mikið undanfarin ár í starfsemi fyrirtækisins.