Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK kom til hafnar í Reykjavík snemma í morgun eftir stutta veiðiferð, þá fyrstu eftir að sjómannaverkfalli lauk. Er rætt var við Eirík Jónsson skipstjóra í gærkvöldi sagðist hann vonast til að aflinn yrði rúmlega 100 tonn.

Sturlaugur H. Böðvarsson fór í veiðiferðina sl. sunnudagskvöld, eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslu vegna nýrra kjarasamninga lá fyrir, og að sögn Eiríks var byrjað á karfaveiðum á Melsekknum.

-- Við fengum strax ágætis afla en svo reyndum við fyrir okkur á Eldeyjarbankanum þar sem aflinn var blandaðri. Við fengum þar tvö góð höl af stórufsa, sannkölluðum vertíðarfiski, og karfa og þorsk. Nú erum við í Skerjadjúpinu, austan við Búðagrunn, og aflinn er aðallega ufsi og þorskur. Það eru allir ánægðir ef ufsinn gefur sig til. Mér sýnist að þetta sé að verða góður skammtur hjá okkur en við höldum eitthvað áfram áður en haldið verður til lands, segir Eiríkur á heimasíðu HB Grandi.