Allt að helmingur þeirra hnúfubaka sem sést hafa í hafinu umhverfis Ísland bera þess merki að hafa flækst í veiðarfærum.
Charla Basran hefur ásamt fleiri vísindamönnum birt niðurstöður rannsókna sinna á því hve oft hnúfubakar flækjast í veiðarfæri. Þetta er í fyrsta sinn sem mat er lagt á tíðni þess að hvalir flækist í veiðarfærum á Norður-Atlantshafi.
Niðurstaðan varð sú að á bilinu 25 til 50 prósent þeirra hnúfubaka sem sáust hér við land báru þess greinileg merki að hafa einhvern tímann flækst í veiðarfærum.
Til að rannsaka þetta voru notaðar ljósmyndir teknar af hnúfubökum í hvalaskoðunarferðum á þremur stöðum við landið, í Eyjafirði, Skjálfanda og Faxaflóa. Til að geta metið hvort hvalirnir hafa flækst í veiðarfæri þurftu ummerkin að sjást greinilega á ljósmyndunum. Ummerkin eru sár eða ör eftir sár, oftast á sporði eða styrtlu, og stundum sjást jafnvel leifar af veiðarfærum.
Alls reyndust myndir af 379 einstaklingum nothæfar og voru þær teknar á árunum 2005 til 2017, flestar á tímabilinu frá mars fram í nóvember.
Á myndunum sást að 94 þessara hnúfubaka, eða 24,8 prósent heildarfjöldans, sýndu augljós merki þess að hafa flækst í veiðarfærum, en ef tekin eru með ummerki sem virðast vera eftir veiðarfæri, þótt það sé ekki óyggjandi, þá er mögulegt að allt að 50,1 prósent, eða 190 dýr, hafi lent í slíkum hremmingum.
Sjö dýr voru enn með veiðarfæri á sér, ýmist girni, reipi eða net.
Lína, handfæri og net
Basra og félagar hennar segja ýmislegt benda til þess að sumir þessara hnúfubaka, að minnsta kosti, hafi flækst í veiðarfærin hér við land. Ekki er þó vitað með óyggjandi hætti hvaða tegund veiðarfæra þeir flækjast helst í. Líklega sé þó ekki um eina tegund veiðarfæra að ræða umfram aðrar.
„Þær veiðar sem helst eru stundaðar nálægt þeim stöðum þar sem gagna okkar var aflað eru veiðar með línu, handfæri og netum, sem kemur líka heim og saman við þær veiðarfærategundir sem sáust flæktar í hvölunum,“ segir í grein þeirra.
Greinin var birt nú í byrjun febrúar í tímaritinu Endangered Species Research. Meðhöfundar Chörlu Basran eru Chiara G. Bertulli, Arianna Cecchetti, Marianne H. Rasmussen, Megan Whittaker og Jooke Robins.
Charla Jean Basran hefur stundað rannsóknir sínar á hnúfubökum undanfarin ár í tengslum við doktorsnám við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. Rætt var við hana í Fiskifréttum síðastliðið vor þar sem hún sagðist vonast til að rannsóknir sínar gætu orðið til þess að færri hvalir flækist í veiðarfæri.
Þá sé hún ekki eingöngu að hugsa um velferð hvalanna heldur ekki síður hagsmuni sjómanna sem verða fyrir tjóni á veiðarfærum.
„Ég vil skoða báðar hliðar málsins og láta sjónarmið sjómannanna koma fram, því þeir líta sjálfir á þetta ákveðið vandamál fyrir veiðarnar,“ sagði hún.
Hnúfubaknum hefur fjölgað mikið
Charla hefur lengi stundað rannsóknir á hnúfubökum við Ísland og strax árið 2013 bentu bráðabirgðaniðurstöður rannsókna til þess að nærri 42 prósent þessara hvala flæktust í net í hafinu umhverfis Ísland.
Hnúfubaknum hefur fjölgað töluvert hér við land undanfarin tíu ár og er heildarfjöldinn líklega kominn upp í 12 þúsund dýr. Charla sagði að þessi tala hafi haldist stöðug í síðustu athugunum en fyrir tuttugu árum er talið að hnúfubakar hér við land hafi verið innan við tvö þúsund.
„Þetta þýðir líka að það er eftir því sem þeim fjölgar er meiri hætta á að þeir flækist í net,“ sagði hún.
Liður í rannsóknum hennar voru ferðir með loðnubát þar sem hún gat fylgst nokkuð náið með umgengni hvala við loðnunót.
„Ég held satt að segja að þeir verði sjaldnast fyrir alvarlegum meiðslum af loðnunót. Það er frekar að þeir skaðist þegar þeir synda í gegnum netalögn. Þá taka þeir netið oft með sér en þegar það gerist er erfitt að segja til um hvað gerist því netið glatast og ekkert er vitað um afdrif hvalanna. Ekki nema maður finni dýrið sjálft ennþá flækt í netið. Við sjáum slíkt einstöku sinnum gerast við Ísland, en það er ekki mjög oft.“