Lúðustofninn virðist vera í mjög slæmu ástandi ef marka má niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

Vísitala lúðu í stofnmælingunni lækkaði verulega á árunum 1986-1990 og hefur haldist lág síðan. Aldrei hefur fengist eins lítið af lúðu í vorralli og síðustu tvö ár og stofnvísitalan nú er 30 sinnum lægri en árin 1985-1986, segir í frétt um málið á vef Hafró.

Sem kunnugt er tók algjört veiðibann á lúðu gildi um síðustu áramót. Sleppa skal allri lífvænlegri lúðu sem veiðist, en dauða lúðu á að selja á fiskmörkuðum og rennur andvirðið í rannsóknasjóð.