Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax og nýsköpunarfyrirtækið Alda Öryggi hafa gengið til formlegs samstarfs um að innleiða Öldu öryggisstjórnunarkerfið um borð í alla þjónustubáta og fóðurpramma Arnarlax.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Arnarlax. Þar segir samstarfið marki tímamót í öryggismálum fiskeldisstarfsemi á sjó og sé stórt skref í að efla öryggisstjórnun og öryggismenningu í greininni.
„Með innleiðingu Öldu mun kerfið halda utan um nýliðaþjálfun, björgunaræfingar og reglubundnar öryggisúttektir um borð í þjónustubátum og fóðurprömmum Arnarlax. Jafnframt verður atvikaskráning sjómanna stafræn í gegnum ATVIK-sjómenn sem tryggir skilvirka greiningu og eftirfylgni öryggisatvika,“ segir í tilkynningunni.
Aðlaga að öryggisáskorunum í fiskeldisstarfsemi á sjó
Áfram segir að Arnarlax muni gegna lykilhlutverki í þróuninni með því að aðlaga Ölduna að öryggisáskorunum í fiskeldisstarfsemi á sjó. Sjómenn fyrirtækisins verði virkir þátttakendur í að móta og þróa lausnir sem mæti raunverulegum aðstæðum og þörfum þeirra. Slík nálgun sé lykillinn að árangri í þróunarsamstarfinu þar sem öryggismál verði ríkari hluti af störfum sjómanna og efli öryggismenningu fyrirtækisins.
„Við erum afar spennt fyrir því að taka þátt í þessu þróunarverkefni með Öldunni. Öryggismál eru forgangsatriði hjá okkur og með þessari nýsköpun tryggjum við betri vinnuaðstæður og aukið öryggi fyrir okkar sjómenn,“ segir Silja Baldvinsdóttir gæðastjóri Arnarlax.
„Erum afar þakklát fyrir mikinn áhuga og frumkvæði“
Gísli Níls Einarsson, framkvæmdastjóri Öldunnar tekur í tilkynningunni undir mikilvægi samstarfsins:
„Við erum afar þakklát fyrir mikinn áhuga og frumkvæði Arnarlax á að þróa Ölduna enn frekar fyrir fiskeldisstarfsemi. Með virkri þátttöku sjómanna Arnarlax tryggjum við að kerfið verði að fullu aðlagað að raunverulegum starfsaðstæðum þeirra og stuðli að aukinni öryggisvitund með markvissri nýliðaþjálfun, öryggiseftirliti, björgunaræfingum sem stuðla enn betri öryggismenningu í fiskeldi í sjó,“ er haft eftir Gísla.
Þá segir að með þessu samstarfi stígi Arnarlax og Aldan stórt skref í átt að nýsköpun á stafrænum öryggislausnum sem efli öryggi í íslenskri fiskeldisstarfsemi og marki ný viðmið fyrir framtíð greinarinnar.