Laxveiðar í Alaska eru nú í vottunarferli MSC í þriðja sinn en áður voru þessar veiðar vottaðar árið 2000 og 2007. Vottunina þarf að endurnýja á nokkurra ára fresti.

,,Hér á landi var nokkur umræða um það að Alaskamenn væru að draga sig út úr MSC. Það er ekki reyndin. Þótt í Alaska sé líka komin vottun samkvæmt staðli sem er af svipuðum toga og hinn íslenski eru sömu veiðar áfram vottaðar samkvæmt MSC-staðli, bæði lax og alaskaufsi,” sagði Gísli Gíslason fulltrúi MSC á Íslandi í samtali við Fiskifréttir.

Laxveiðar í Alaska eru mjög umfangsmiklar. Árið 2010 nam laxaaflinn um 363 þúsund tonnum. Laxinn er veiddur í net, nót, troll og fleiri veiðarfæri. Þrír fjórðu ferska og frysta aflans fara til Japans en afgangurinn er soðinn niður einkum fyrir markaði í Evrópu og Bandaríkjunum.