Það varð uppi fótur og fit meðal smábátasjómanna í dag þegar þeim varð ljóst að auglýsing hefði birst í Stjórnartíðindum 8. júlí þess að sjávarútvegsráðherra hefði heimilað með reglugerð að dragnótaveiðar mættu hefjasta í Faxaflóa á morgun, 15. júlí. Undanfarin ár hafa veiðarnar hafist 1. september. Reglugerðin var síðan dregin til baka skömmu eftir hádegi í dag.
Þorvaldur Gunnlaugsson, formaður Smábátafélags Reykjavíkur, hafði sagt sjávarútvegsráðherra kasta stríðshanskanum með þessari embættisfærslu. Ákvörðunin mundi skaða útgerð þeirra. Einnig mundi þetta leiða til aflatregðu hjá strandveiðibátum og þeim fjölmörgu sportveiðimönnum sem róa í Flóann á þessum tíma til að veiða sér í soðið.
Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, segir mistök hafi verið gerð innan ráðuneytisins. Komið hafi beiðni frá ákveðnum útgerðaraðila dragnótarbáts um að fá að hefja veiðar um miðjan mánuðinn. Beiðnin hafi verið borin undir Hafrannsóknastofnun sem taldi fiskifræðilega ekkert því til fyrirstöðu orðið yrði við henni. Í framhaldi af því var reglugerðin gefin út og auglýst í Stjórnartíðindum.
„Það sem gerðist var að okkur láðist að leita samráðs vegna þessa sem m.a. má rekja til mikils annríkis. Þegar fréttist af reglugerðinni, sem átti að taka gildi á morgun, heyrðist hljóð úr horni. Við litum ekki á þetta sem stórmál og drógum hana einfaldlega til baka. Við ætlum að leita samráðs og ákveða framhaldið síðar. Þetta var dálítíll feill af okkar hálfu og við munum væntanlega skrifa dragnótarmönnum bréf í þessari viku og óska eftir þeirra sjónarmiðum,“ segir Jóhann.
Hann segir samt ekki loku fyrir það skotið sú breyting verði gerð að upphaf dragnótaveiða í Faxaflóa verði færð til.