Verið er að setja búnað í ísfisktogarann Akurey AK 10 sem gerir skipinu kleift að draga tvö troll samtímis. Um er að ræða þriðju togvinduna, tvær grandaravindur og stjórnbúnað. Búnaðurinn kemur allur frá Naust Marine.

Eiríkur Jónsson skipstjóri segir að fyrir vikið verði skipið mun afkastameira við veiðar með minni tilkostnaði.

„Þetta skilar sér vonandi í meiri afla í tregfiskiríi. Þegar menn eru að fá eitt tonn á togtímann með einu trolli fá þeir sem eru með tvö troll tvö tonn. Svo einfalt er það nú. Þetta skilar meiri afla og sérstaklega horfir maður til þess þegar veiðar ganga treglega. Það er alltaf treg veiði hluta úr árinu, eins og á haustin og fram á vetur. Það hefur alltaf verið svo og verður áfram. En við höfum svo sem ekkert með tvö troll að gera þegar er mokveiði,“ segir Eiríkur.

Náðu ekki öllum þorskinum í fyrra

Hann segir að nýi búnaðurinn auki veiðihæfni skipsins verulega. Áður en framkvæmdirnar hófust hjá Stálsmiðjunni í Hafnarfjarðarhöfn hafði skipið verið málað og botnhreinsað í slippnum í Reykjavík. Þar var líka byrjað að undirbúa uppsetningu á nýja búnaðinum.

Hvað kvótastöðuna varðar segir Eiríkur hana góða. Menn hafi getað fiskað nánast eins og skipin komast yfir. „Í fyrrahaust náðum við ekki einu sinni öllum þorskinum vegna þess hve tregt var yfir veiðunum. Þess vegna líka er ráðist í þessar framkvæmdir nú. Þeir ættu að tryggja að við náum því sem við megum taka.

Akurey kom ný til landsins sumarið 2017 og um svipað leyti voru systurskipin Engey RE og Viðey RE sjósett. Skipin voru smíðuð í Tyrklandi fyrir HB Granda, nú Brim hf. Fyrir einu ári seldi HB Grandi Engey til rússneska útgerðarfélagsins Trawl Fleet í Múrmansk í Rússlandi.

Framkvæmdunum átti að vera lokið 8. júní en þær hafa reynst viðameiri en áður var ætlað. Eiríkur taldi líklegt að skipið færi á veiðar eftir eina viku til tíu daga. Hann sagði verkið þó hafa gengið vel en þetta hafi verið óhemjumikil vinna.

Vinnslan sjálfvirknivædd

„Þegar verkið klárast sækjum við veiðarfæri og víra á þriðju vinduna. Svo verður bara farið út á sjó að fiska. Kambur í Hafnarfirði mun vinna aflann því breytingar standa yfir í fiskvinnslu Brims á Norðurgarði,“ sagði Eiríkur. Þar er verið að sjálfvirknivæða vinnsluna og hefur Brim hf. varið um þremur milljörðum króna í fjárfestingar sem tengjast því.

Veiðar höfðu gengið vel á Akurey áður en til stoppsins kom. Eiríkur segir að ísfisktogararnir séu að mokfiska þessa dagana. Hann segir reynsluna af Akurey mjög góða frá því skipið kom fyrir þremur árum. Byrjunin var reyndar dálítið brösótt. Í febrúar 2018 fékk skipið í skrúfuna suðvestan við landið og var dregið til hafnar. Í júní sama ár varð skipið vélarvana djúpt vestur af Vestfjörðum. Eiríkur segir það í raun hafa verið smámál. Undirlyfta í vél hafi farið og hún hafi ekki verið til um borð. Þess vegna var skipið dregið til hafnar.