Birkir Bárðarson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun segir það ekki koma sér sérstaklega á óvart að loðna leiti til norðurs í fæðuleit og það eigi jafnt við um loðnustofninn í Barentshafi og Norður-Noreg og íslenska loðnustofninn. Þetta megi rekja til umhverfisbreytinga en stóra spurningin sem ekki hefur verið svarað er hvernig þetta breytta göngumynstur hafi áhrif á hrygningu.

Birkir Bárðarson fiskifræðingur.
Birkir Bárðarson fiskifræðingur.
© Þorgeir Baldursson (.)

Norska norðurheimskautsstofnunin stóð fyrir leiðangri í Íshafið nýlega þar sem fannst loðna í umtalsverðu magni norðar en áður hefur fundist. Sjá frétt.

„Það er viðbúið að uppsjávarstofnar bregðist við umhverfisbreytingum eins og þeim þegar ís hopar í Íshafinu. Það kemur því ekkert sérstaklega á óvart að loðnan sé tiltölulega fljót að bregðast við og gangi norðar eftir því sem Íshafið opnast,“ segir Birkir.

Hann segir að einnig hafi verið fylgst með breytingum sem lúta að íslenska loðnustofninum sem er greinilega farin að sækja norðar. Barentshafsstofninn sé aðlagaður því að vera á mörkum heimskautssjávar. Loðnan fari norðar eftir því sem ísinn hopar á fæðuslóð.

Þróun sem mun halda áfram

„Loðna er uppsjávarfiskur sem hrygnir á hafsbotni og treystir á það að seiðin reki fyrir straumum á lífvænleg svæði. Hún þarf því að ná til baka á hrygningarstöðvar á grunnsævi til þess að hrygna. Það mun væntanlega koma í ljós í framhaldinu hvernig gangi að viðhalda lífsferli tegundarinnar.“

Hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Tarjoq frá Grænlandi leita nú loðnu á landgrunni Austur-Grænlands og úti fyrir norvestanverðu Íslandi.  Þarna má sjá feril skipanna í síðustu viku. Mynd/Hafró
Hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Tarjoq frá Grænlandi leita nú loðnu á landgrunni Austur-Grænlands og úti fyrir norvestanverðu Íslandi. Þarna má sjá feril skipanna í síðustu viku. Mynd/Hafró

Birkir segir að allar þær þjóðir sem ætla sér að nýta þessa auðlind sem opnast þegar hafísinn hopar í Íshafinu geti því staðið frammi fyrir nýjum veruleika. Alþjóðlegur samningur um fiskveiðar í Íshafinu tók gildi árið 2017. Aðilar að samningnum eru tíu þjóðir, þar á meðal Ísland, Noregur og Rússland. Birkir, sem á sæti í vísindaráði samningsins, segir hann ganga út á það að nýta þetta hafsvæði með sjálfbærni í huga og ekki verði farið af stað með veiðar fyrr en afloknum vísindarannsóknum.

Nær loðna til baka á hrygningarslóðir

„Þeir stofnar sem eru núna við jaðar heimskautasjávar, eins og íslenski loðnustofninn og Barentshafsstofninn, eru líklegir til að verða fyrsta nýtanlega auðlindin hvað fiskveiðar varðar í Íshafinu. Samfara umhverfisbreytingunum í hafsvæðinu norðan við Ísland höfum við séð mikla umbreytingu á útbreiðslu loðnu, reyndar strax upp úr síðustu aldamótum. Í kjölfarið sáum við loðnu fara sífellt norðar á fæðuslóð sinni og það er þróun sem mun halda áfram. Við eigum svo eftir að sjá hvernig fram vindur. Við höfum velt því upp hvort það komi að því að loðnan nái ekki til baka á hrygningarstöðvarnar haldi sú þróun áfram að hún leiti stöðugt norðar á fæðuslóð sinni. Mun hún þá þurfa að finna sér aðrar hrygningarslóðir og hvernig mun þá ungviðinu vegna sem rekur af þeim hrygningarslóðum? Hérna við Ísland gætum við jafnvel átt von á aukinni hrygningu fyrir norðan land vegna þessara breytinga,“ segir Birkir.