Að morgni þriðjudagsins 7. febrúar sl. fékk færeyska línuskipið Kambur á sig brotsjó suður af Suðurey í Færeyjum og lagðist á hliðina. Á skipinu var 16 manna áhöfn og komust 14 úr áhöfninni upp á skipið þar sem það flaut á hliðinni og var þeim bjargað um borð í þyrlu og fluttir til lands. Tveggja úr áhöfninni var hins vegar saknað og hófst fljótlega leit að þeim. Eitt þeirra skipa sem tóku þátt í leitinni var Barði NK en Barði var á kolmunnaveiðum í færeyskri lögsögu þegar slysið átti sér stað. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Þorkel Pétursson, skipstjóra á Barða, og bað hann um að segja frá því sem þarna gerðist. Frásögn hans fer hér á eftir:
Við vorum að toga við landgrunnskantinn suðvestur af Færeyjum þriðjudaginn 7. febrúar. Veðrið var snarvitlaust um morguninn og ég hugsa að ölduhæðin hafi verið einir sex metrar. Um klukkan tvö eftir hádegi hringdi færeyska landhelgisgæslan í okkur og greindi frá slysinu og bað okkur að taka þátt í leit að tveimur færeyskum sjómönnum af Kambi. Við fengum vitneskju um að brotsjór hefði riðið yfir bátinn, hann lagst á hliðina og síðan sokkið eftir töluverðan tíma. Okkur var einnig greint frá því að búið væri að bjarga 14 úr áhöfninni og þyrla hefði flutt þá til lands. Þegar þyrlan bjargaði áhöfninni gat hún einungis tekið 13 menn um borð þannig að einn þurfti að hýrast á skipinu á meðan hún fór í land og kom síðan aftur til að sækja hann. Það hlýtur að hafa verið ömurleg vist fyrir manninn.
Við hífðum strax eftir að landhelgisgæslan hringdi og héldum af stað á leitarsvæðið. Þegar við hífðum var veðrið eiginlega gengið niður. Það tók okkur um einn og hálfan tíma að komast á svæðið sem leitað var á. Hoffell SU var að toga skammt frá okkur og þeir fengu sömu beiðni og við, hífðu strax og lögðu af stað til leitar. Það var leitað að mönnunum tveimur bæði á sjó og úr lofti. Við komum í björtu á leitarsvæðið en fljótlega skall á niðamyrkur. Á Barða eru þrír öflugir kastarar og þeir komu sér vel við leitina í myrkrinu. Þegar við vorum búnir að leita um tíma fengum við skilaboð frá breskri leitarflugvél um að athuga eitthvað sem þeir höfðu séð á floti í sjónum á tilteknum stað í grennd við okkur. Við héldum þegar þangað og þarna fundum við tvö björgunarvesti og einn bjarghring á floti. Þessa hluti tókum við um borð. Að þessu loknu héldum við leitinni áfram og sáum töluvert af braki í sjónum. Fljótlega fengum við tilkynningu um að leitinni væri frestað fram í birtingu og þar með lauk þátttöku okkar í þessari leit. Leitinni var hins vegar haldið áfram fram á laugardag en því miður var hún árangurslaus.
Það er ávallt átakanlegt að upplifa slys eins og það sem hér átti sér stað. Menn voru daprir og áhyggjufullir en einbeittu sér að leitinni eins og frekast var kostur. Allir í áhöfninni voru virkir við leitina og vonuðu heitt og innilega að hún bæri árangur. Fyrir okkur er einfalt að setja okkur í spor færeyskra starfsbræðra og finna til með þeim og fjölskyldum þeirra. Þessi atburður hafði djúp áhrif á alla í áhöfninni á Barða.
Þegar við lukum veiðum var komið við í Þórshöfn og þeir hlutir sem við fiskuðum upp úr sjónum við leitina afhentir landhelgsigæslunni.
Að morgni þriðjudagsins 7. febrúar sl. fékk færeyska línuskipið Kambur á sig brotsjó suður af Suðurey í Færeyjum og lagðist á hliðina. Á skipinu var 16 manna áhöfn og komust 14 úr áhöfninni upp á skipið þar sem það flaut á hliðinni og var þeim bjargað um borð í þyrlu og fluttir til lands. Tveggja úr áhöfninni var hins vegar saknað og hófst fljótlega leit að þeim. Eitt þeirra skipa sem tóku þátt í leitinni var Barði NK en Barði var á kolmunnaveiðum í færeyskri lögsögu þegar slysið átti sér stað. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Þorkel Pétursson, skipstjóra á Barða, og bað hann um að segja frá því sem þarna gerðist. Frásögn hans fer hér á eftir:
Við vorum að toga við landgrunnskantinn suðvestur af Færeyjum þriðjudaginn 7. febrúar. Veðrið var snarvitlaust um morguninn og ég hugsa að ölduhæðin hafi verið einir sex metrar. Um klukkan tvö eftir hádegi hringdi færeyska landhelgisgæslan í okkur og greindi frá slysinu og bað okkur að taka þátt í leit að tveimur færeyskum sjómönnum af Kambi. Við fengum vitneskju um að brotsjór hefði riðið yfir bátinn, hann lagst á hliðina og síðan sokkið eftir töluverðan tíma. Okkur var einnig greint frá því að búið væri að bjarga 14 úr áhöfninni og þyrla hefði flutt þá til lands. Þegar þyrlan bjargaði áhöfninni gat hún einungis tekið 13 menn um borð þannig að einn þurfti að hýrast á skipinu á meðan hún fór í land og kom síðan aftur til að sækja hann. Það hlýtur að hafa verið ömurleg vist fyrir manninn.
Við hífðum strax eftir að landhelgisgæslan hringdi og héldum af stað á leitarsvæðið. Þegar við hífðum var veðrið eiginlega gengið niður. Það tók okkur um einn og hálfan tíma að komast á svæðið sem leitað var á. Hoffell SU var að toga skammt frá okkur og þeir fengu sömu beiðni og við, hífðu strax og lögðu af stað til leitar. Það var leitað að mönnunum tveimur bæði á sjó og úr lofti. Við komum í björtu á leitarsvæðið en fljótlega skall á niðamyrkur. Á Barða eru þrír öflugir kastarar og þeir komu sér vel við leitina í myrkrinu. Þegar við vorum búnir að leita um tíma fengum við skilaboð frá breskri leitarflugvél um að athuga eitthvað sem þeir höfðu séð á floti í sjónum á tilteknum stað í grennd við okkur. Við héldum þegar þangað og þarna fundum við tvö björgunarvesti og einn bjarghring á floti. Þessa hluti tókum við um borð. Að þessu loknu héldum við leitinni áfram og sáum töluvert af braki í sjónum. Fljótlega fengum við tilkynningu um að leitinni væri frestað fram í birtingu og þar með lauk þátttöku okkar í þessari leit. Leitinni var hins vegar haldið áfram fram á laugardag en því miður var hún árangurslaus.
Það er ávallt átakanlegt að upplifa slys eins og það sem hér átti sér stað. Menn voru daprir og áhyggjufullir en einbeittu sér að leitinni eins og frekast var kostur. Allir í áhöfninni voru virkir við leitina og vonuðu heitt og innilega að hún bæri árangur. Fyrir okkur er einfalt að setja okkur í spor færeyskra starfsbræðra og finna til með þeim og fjölskyldum þeirra. Þessi atburður hafði djúp áhrif á alla í áhöfninni á Barða.
Þegar við lukum veiðum var komið við í Þórshöfn og þeir hlutir sem við fiskuðum upp úr sjónum við leitina afhentir landhelgsigæslunni.