Landað var á Grundarfirði í byrjun vikunnar eftir ágætan fyrsta túr úti fyrir Vestfjörðum. Jóhanna Gísladóttir kom svo til hafnar og landaði úr sínum öðrum túr á þriðjudag og til stóð að dytta aðeins að skipinu og laga fjarskiptabúnað. Einar hugðist síðan halda austur fyrir land þar sem útlit var fyrir mun skárra veður næstu daga. Það var því sólarhrings stím framundan.
„Hann gekk alveg slysalaust fyrir sig þessi fyrsti túr, eða þolanlega eins og menn segja. Þetta var ágætis byrjun þó veðrið hafi nú ekki leikið við okkur. Það er ekki hægt að vera þarna úti fyrir Vestfjörðum núna svo að við flúðum hingað. Við vorum úti á Hala og í Nesdýpinu og á grunnslóðinni líka. Það var kaldafýla þarna og fór svo að bræla en það kemur fiskur þarna reglulega,“ segir Einar.
Viljum helst þorsk og ýsu
Landað var úr fyrsta túrnum á Grundarfirði eftir hádegi á mánudag, alls um 35 tonnum, mest af þorski og ýsu. „Við viljum helst fá þorsk og ýsu og ufsa kannski en það er töluvert af ýsu og karfa þarna líka. Ufsinn getur verið erfiður og menn ganga ekkert að honum vísum. Þeir sem voru þarna í kringum okkur fóru líka af svæðinu vegna veðurs. Sumir fóru austur fyrir land og einhverjir suður eftir. Það verður enginn friður þarna út þessa viku held ég. Við erum núna í Jökuldýpinu og ég held að hérna sé bara mest karfa að hafa.“
Einar segir Jóhönnu ágætasta bát þótt ekki sé hann langur. Hann geti þó alveg verið óþægur í vondum sjó og stampar þegar keyrt er á móti veðri, enda ekki nema 33 metra langur. Einar er reyndar ekki alveg óvanur skipinu því hann var á því þegar það hét Bergur VE á árunum 2005 til 2012. Hann var því á skipinu þegar það kom fyrst til landsins en það var smíðað hjá Karstensens Skipværft í Danmörku 1998. Það var í eigu Bergs-Hugins, dótturfélags Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Vísir hf., útgerð Jóhönnu Gísladóttur, hefur verið þekkt fyrir línuveiðar en fyrir um það bil ári tók það togskipið Bylgju VE á leigu með þeim áformum að jafna aðföngin til vinnslunnar. Þegar Jóhanna Gísladóttir var tekin í notkun eftir lagfæringar og málningarvinnu í Slippnum í Reykjavík var Bylgjunni skilað.
Veiðarfæri sem styðja hvert annað
„Nýja Jóhanna Gísladóttir er alveg ljómandi gott og vandað skip. En hún felur ekki í sér neina stefnubreytingu af okkar hálfu, þ.e.a.s. að við séum að leggja minni áherslu en áður á línuveiðar. Við höfum stundum verið í vandræðum með það hve lítið fiskirí getur verið á línu á sumrin. Það hefur oft verið ansi tregt svona síðsumars. Þessi ólíku veiðarfæri styðja hvert annað og jafna aðföngin fyrir vinnsluna," segir Kjartan Viðarsson, útgerðarstjóri hjá Vísi.
Pétur Hafstein Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir frekari breytingar á flotanum ekki fyrirhugaðar og hann sé kominn í það horf sem hentar fyrirtækinu vel miðað við veiðiheimildir. Komi til einhverrar aukningar ætti ný Jóhanna Gísladóttir að ráða við það að brúa það bil.