Fordæmalaust ástand er þessa dagana í Grindavík eftir að bærinn var rýmdur á föstudagskvöld vegna mikillar jarðskjálftahrinu og yfirvofandi ógnar af eldgosi.

Við fyrstu sýn virðast ekki hafa orðið miklar skemmdir á eignum útgerðarfélaganna Þorbjarnar og Vísis í Grindavík. Starfsmenn þeirra kepptust á mánudag og þriðjudag við að flytja afurðir úr bænum með ógnina af hugsanlegu eldgosi vofandi yfir sér.

Fordæmalaust ástand er þessa dagana í Grindavík eftir að bærinn var rýmdur á föstudagskvöld vegna mikillar jarðskjálftahrinu og yfirvofandi ógnar af eldgosi.

Á mánudag og og í gær var unnið að því að bjarga verðmætum úr fyrirtækjum í bænum auk þess sem íbúum  gafst kostur á að skjótast heim til sín að ná í nauðsynjar og verðmæti.

Að sögn Gunnars Tómassonar, framkvæmdastjóra útgerðarfyrirtækisins Þorbjarnar, náðu starfsmenn að flytja um 250 tonn af söltuðum afurðum úr bænum á mánudeginum. „Við gætum ekki einu sinni klárað þó við hefðum allan daginn,“ sagði Gunnar þegar rætt var við hann fyrir hádegi í gær og hann spurður um stöðuna á flutningunum.

Flytja fisk í verkun

Gunnar sagði það sem þá var eftir vera mikið til fisk í verkun og hann þyrfti að flytja í því ástandi.

Flutningabílar bíða eftir að komast inn í Grindavík í gær. Mynd/Óskar Gunnarsson
Flutningabílar bíða eftir að komast inn í Grindavík í gær. Mynd/Óskar Gunnarsson

„Þannig að þetta eru meiri flutningar út af því,“ sagði hann. Farið væri með fiskinn í geymslu hjá Veri í Þorlákshöfn og hjá Fiskkaupum í Reykjavík.

Ef ekki verður um frekari hamfarir að ræða í Grindavík segir Gunnar stöðuna góða hjá Þorbirni.

„Það er allt í góðu lagi hjá okkur, við höfum ekki orðið fyrir neinu tjóni. Öll hús og öll tæki og tól eru eins og þau voru fyrir skjálftana,“ sagði Gunnar.

Þannig var útlit fyrir að Þorbjörn myndi miðað við óbreytt ástand sleppa með skrekkinn. Flestir starfsmenn fyrirtækisins starfa úti á sjó en í landi eru samtals um eitt hundrað manns að sögn Gunnars.

„En ef þetta færi á verri veg þá held ég að við myndum ná að bjarga ansi miklu til skamms tíma litið. Þótt maður geti svo sem ekki fullyrt um það sé ég ekki annað fyrir mér því við erum það langt frá versta svæðinu,“ sagði Gunnar.

Hjálpa starfsfólki eins og hægt er

Starfsfólk Þorbjarnar er eins og allir Grindvíkingar komið í skjól fyrir utan Grindavík og eru þeir víða, á Stór-Reykjavíkursvæðinu og á Suðurlandi og í bæjunum á Reykjanesi.  Að sögn Gunnars er starfsmaður frá Þorbirni í stöðugu sambandi við alla starfsmenn fyrirtækisins.

„Það þarf að aðstoða fólk við að flytja sig á milli staða. Sumir eru í skammtímalausn en aðrir hafa lengri möguleika. Sums staðar er of þröngt hjá fólki og þarf að rýma aðeins betur til og dreifa fólki aðeins betur. Við erum að hjálpa eins og við getum,“ sagði Gunnar.

Langmest af afurðunum sem verið er að flytja frá Grindavík sagði Gunnar ætlað á jólamarkaðinn í Evrópu, mest til Spánar en líka til Bretlands og Belgíu. „Og þetta er allt saman að bjargast,“ sagði hann.

Góður andi í björgunarliðinu

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, sagði starfsmenn hafa unnið að því á mánudag að taka það sem legið hafi undir skemmdum;  fisk í pækli og fisk í kæli sem átti að vinnast á mánudeginum. Framundan væri að taka út úr frystiklefanum og síðan það sem væri í salti.

„Þetta fer í aðra frystiklefa og það sem var klárt í útflutning. Það eru alls konar leiðir í því,“ svaraði Pétur spurður um hvert afurðirnar yrðu fluttar.

Starfsfólk Vísis sagði Pétur nú vera í mikill óvissu. „Það er góð stemning í björgunarliðinu sem er í þessu en starfsfólkið er náttúrlega í sömu óvissu og allir Grindvíkingar. Fólk er í óvissu um heimili sín og vinnuna sína,“ sagði Pétur.

Vikuna til að meta stöðuna

Varðandi hús og tæki Vísis sagði Pétur ástandið býsna gott. „Það eru ekki sjáanlegar neinar stórskemmdir. Ég kalla það ekki stórskemmdir þó að borhola skekkist eða hurð festist eða annað slíkt. En við höfum náttúrlega ekki gengið almennilega um svæðið, við höfum bara einbeitt okkur að því að bjarga afurðunum,“ sagði hann.

Pétur sagði of snemmt að segja að miðað við að ekki yrði um frekari hamfarir að ræða væri hægt að taka upp starfsemina óbreytta.

„Þetta er ekki allt sýnilegt og starfsfólkið er tætt og rifið. Fyrst var að ná því sem lá undir skemmdum og nú er að bjarga afurðum sem eru í geymslum og svo koll af kolli svo við skulum lofa mey að morgni í þessu. Ætli það sé ekki þessi vika sem þarf til að meta stöðuna,“ sagði framkvæmdastjóri Vísis.