Stjórnvöld í Írlandi hafa ákveðið að taka upp nýjar aðferðir við vigtun á fiski. Ástæðan er meint frávik sem hafa orðið í lönduðum afla og vegnum afla en á Írlandi, eins og á Íslandi, er fiskvinnsluhúsum treyst fyrir því að vigta uppsjávarafla.
Ákvörðunin var tekin í kjölfar úttektar í janúar síðastliðnum þar sem farið var í mörg fiskvinnsluhús. Úttektin leiddi í ljós mismikil og misjafnlega alvarleg frávik í lönduðum afla og vegnum.
Stjórnvöld segja að niðurstaða úttektarinnar hafi verið sú að hægt sé „að handstýra niðurstöðum vigtunar“. Dæmi um þetta fundust þó einungis í einu þeirra fiskvinnsluhúsa sem farið var í.
Í framhaldinu ákváðu stjórnvöld að afturkalla allar heimildir til vigtunar tímabundið og verður nú að vigta allan uppsjávarafla á hafnarvog þar til ný og öruggari aðferð við vigtun í fiskvinnsluhúsum hefur fundist.
Sem fyrsta stig í þessum breytingum þá hafa stjórnvöld kynnt til sögunnar eftirlitskerfi með myndavélum í fiskvinnsluhúsum sem er skilyrði fyrir leyfisveitingu til vigtunar. Talsmenn útgerðar og fiskvinnslu á Írlandi hafa lýst yfir miklum vonbrigðum með aðgerðir hins opinbera og segja að engar sannanir hafi verið lagðar fram sem sýna fram á að svindlað sé á vigt. Þeir benda einnig á að vigtun uppsjávarafla á hafnarvog dragi verulega úr gæðum afurðanna. Það myndi hreinlega eyðileggja síldina og gæðum makrílsins myndi hraka stórlega við það að aðskilja ísvatn frá aflanum.