Þetta kemur fram í nýbirtu stofnmati og ráðgjöf vegna úthafsrækju. Þar segir að vísitala veiðistofns hefur lítið breyst á árunum 2012 til 2017 fyrir utan árið 2015 þegar hún lækkaði og var sú lægsta frá upphafi mælinga.
Grunnur ráðgjafar fylgir forskrift Alþjóðahafrannsóknaráðsins fyrir stofna þar sem ekki er hægt að beita aldursaflagreiningu, en til eru vísitölur sem taldar eru gefa mynd af breytingum í stofnstærð. Ráðgjöf í úthafsrækju hefur verið byggð á ársgömlum vísitölum, þannig var ráðgjöfin 2016 byggð á vísitölu 2015. Í ár er ráðgjöfin birt seinna, en byggir þá á vísitölu 2017.
Stofninn ekki að stækka
Horfurnar eru þær að vísitala ungrækju hefur verið lág frá 2004 og var í sögulegu lágmarki árin 2015 og 2016. Stofnmælingin bendir til að stofninn muni ekki stækka á næstu árum.
Veiðar á úthafsrækju hófust um miðjan áttunda áratuginn. Helstu veiðisvæði eru norður af landinu, en helstu meðaflategundir eru þorskur og grálúða. Magn þorsks í stofnmælingu úthafsrækju var mjög mikið á árunum 2015 til 2017. Einnig mældist mikið af þorski í stofnmælingu botnfiska að vori og hausti. Því er líklegt að afrán á úthafsrækju hafi aukist mikið á undanförnum árum.