Sjö fífldjarfir Íslendingar sem vildu flýja hernumda Danmörku vorið 1940 lögðu upp í glæfraför á gömlum og hriplekum mótorbáti. Hann var nefndur Frekjan. Þeirra beið illviðri, brotsjór, tundurdufl, kafbátar, njósnarar nasista og Íslenski böðullinn.

eftir Sindra Freysson

Margir Íslendingar höfðu ætlað að sigla með Gullfossi, sem láta átti úr höfn daginn eftir hernámið, en skipið var strax kyrrsett. Gullfoss, flaggskip Eimskipafélagsins, varð raunar innlyksa í Danmörku til stríðsloka undir þýskum yfirráðum, og sigldi aldrei aftur undir íslenskum fána. Brátt varð ljóst að allar leiðir voru lokaðar til Íslands, nema með sérstöku leyfi frá þýsku herstjórninni og það var langt í frá auðfengið.

Margir Íslendingar sem staddir voru í Kaupmannahöfn við hernám Þjóðverja bundu vonir við að flaggskip Eimskipafélagsins, Gullfoss, fengi að sigla heim. Þær vonir brugðust og skipið lá bundið við bryggja ytra öll stríðsárin.
Margir Íslendingar sem staddir voru í Kaupmannahöfn við hernám Þjóðverja bundu vonir við að flaggskip Eimskipafélagsins, Gullfoss, fengi að sigla heim. Þær vonir brugðust og skipið lá bundið við bryggja ytra öll stríðsárin.

Um fimmleytið um morguninn vöknuðum við upp við óskaplegan hávaða yfir borginni. Þar voru sveitir flugvéla á ferð. Stór hópur af dauðskelkuðum fuglum flaug í dauðans ofboði fyrir gluggann.“[i]

Þannig lýsti einn þeirra fjölmörgu Íslendinga sem búsettir voru í Kaupmannahöfn í stríðsbyrjun fyrstu stundum þess að Þjóðverjar hertóku Danmörku þriðjudaginn 9. apríl 1940. Ónefndur Dani súmmeraði upp helstu atburði þessa örlagaríka dags á hnitmiðaðan hátt: „Flyvemaskinerne er tyske. Danmark er besat. Kongen er fange.“[ii]

Innrásin kom einsog reiðarslag yfir Íslendinga sem staddir voru ytra og vildu ekkert frekar en að halda heim til ástvina sinna og starfa. Á þeim tíma var talið að um eittþúsund Íslendingar byggju í Danmörku, þar af 160 námsmenn. [iii]

Fréttaþyrstir Danir lesa tilkynningu Þjóðverja um að þeir hafi hernumið Danmörku, en hún var skrifuð á blendingi af dönsku og norsku og þótti hrákasmíði í alla staði.
Fréttaþyrstir Danir lesa tilkynningu Þjóðverja um að þeir hafi hernumið Danmörku, en hún var skrifuð á blendingi af dönsku og norsku og þótti hrákasmíði í alla staði.

Margir Íslendingar höfðu ætlað að sigla með Gullfossi, sem láta átti úr höfn daginn eftir hernámið, en skipið var strax kyrrsett. Gullfoss, flaggskip Eimskipafélagsins, varð raunar innlyksa í Danmörku til stríðsloka undir þýskum yfirráðum, og sigldi aldrei aftur undir íslenskum fána. Brátt varð ljóst að allar leiðir voru lokaðar til Íslands, nema með sérstöku leyfi frá þýsku herstjórninni og það var langt í frá auðfengið.

Með leyfi eða leynd

Í hópi þeirra sem komust hvorki lönd né strönd var Gísli Jónsson, vélstjóri og síðar alþingismaður. Þess má geta að Gísli var bróðir Guðmundar Kamban, rithöfundar, sem maður að nafni Egon Alfred Højland, meðlimur í andspyrnuhópnum Ringen í Kaupmannahöfn, skaut til bana daginn sem Þjóðverjar gáfust upp fimm árum síðar, í þeirri trú að skáldið væri samverkamaður hernámsliðsins.[iv]

Gísli reyndi margsinnis fyrstu vikur hernámsins að finna greiðfæra heimleið, en varð ekkert ágengt. Þann 10. júní sat hann á útikaffihúsi við Kongens Nytorv ásamt góðkunningja sínum, skipstjóranum Lárusi Blöndal, og þeir tóku að bollaleggja um hvort hugsanlegt væri að sigla með mótorbát til Íslands. Annaðhvort með leyfi þýsku herstjórnarinnar eða með leynd. Félagarnir komust að þeirri niðurstöðu yfir kaffi og koníaki að það væri vert að kanna þessa fífldjörfu hugmynd betur, enda fátt skárra við biðtímann að gera. Þeir ákváðu að fá þriðja manninn til liðs við sig, skipamiðlarann Gunnar Guðjónsson, sem líka var strandaglópur ytra. Gunnar var á þessum tíma framkvæmdastjóri Skipafélagsins Ísafoldar og Gísli stjórnarmaður þar og hluthafi. Þeir höfðu dvalið í Danmörku um nokkurt skeið, þar sem Ísafold var að láta smíða fyrir sig fiskiskip, en hernámið batt snarlega enda á það verkefni.

Fyrsta vandamálið sem við blasti var vitaskuld að finna mótorbát fyrir slíka siglingu. Það reyndist þó enginn hægðarleikur því að skilyrði Þjóðverja voru mjög ströng fyrir bæði leyfisveitingum og farkosti og fjölmargt fleira þurfti að taka með í reikninginn. Þannig mátti „báturinn ekki vera of vandaður, því að þá var ekki hægt að fá útflutningsleyfi á honum, hann mátti heldur ekki vera of lélegur, því að þá hefði ekki verið óhætt að leggja í ferðina og loks mátti hann ekki vera of dýr, því að ekki var hægt að fá hann vátryggðan.”[v]

Þeir fengu þau svör frá þýsku herstjórninni að beiðni þeirra um skipakaup og fararleyfi yrði send til Berlínar til afgreiðslu, en fyrirfram mættu þeir þó gera sér ljóst að enginn fengi slíkt leyfi þar sem Ísland hafði verið hernumið af óvinaþjóðinni Bretum 10. maí. Eða með öðrum orðum: Ykkur er frjálst að sækja um leyfið, en þið fáið það ekki!

Gunnar Guðjónsson skipamiðlari og 1. stýrimaður á Frekjunni.
Gunnar Guðjónsson skipamiðlari og 1. stýrimaður á Frekjunni.

Gísli ákvað þá að senda afrit af beiðninni til áhrifamikils vinar síns í Þýskalandi og bað hann að beita sér í þágu málsins. Í júnílok 1940 fékk hann síðan bréf þess efnis að leyfið yrði veitt – en báturinn yrði þó að vera þannig að hann gæti ekki gagnast Bretum með neinum hætti í styrjöldinni. Þá yrðu þeir að sigla fyrst til Noregs til að fá þar framhaldsleyfi til Íslands. Fulltrúar þýsku herstjórnarinnar í Danmörku voru furðu lostnir yfir þessari leyfisveitingu frá Berlín og réðu Íslendingunum eindregið frá því að reyna að sigla þangað á einhverri lekabyttu, auk þess sem „stríðinu verður lokið eftir fjórtán daga,”[vi] en veittu þeim þó fararleyfið með semingi og upp á eigin ábyrgð.

Sjö vitleysingar sem vildu drekkja sér

Eftir talsverða eftirgrennslan fann Gísli farkost í Frederikshavn, um fimmtán þúsund manna bæ á norðausturhluta Jótlands, sem uppfyllti fyrrnefnd skilyrði: Ekki of vandaður, ekki of lélegur, ekki of dýr. Báturinn taldist því seint glæsifley, enda hafði hann verið tekinn af skipaskrá vegna ósjóhæfni og aldurs. Um var að ræða ríflega hálfrar aldar gamla bátskel, 30 tonn að stærð og var „líkari kóralrifi en bát þar sem hún lá græn af þangi og þara í höfninni.“[vii] Báturinn hafði verið notaður til flutnings á lifandi fiski og var „botn skipsins um miðju allur með smágötum og miðbik þess því fullt af sjó. Í hvern einasta planka í byrðing og þilfari mátti reka hníf viðstöðulaust alla leið upp að hjöltum.“[viii]

Lárus Þórarinn Blöndal Bjarnason var auðvitað sjálfkjörinn til að stýra bátnum. Lárus átti viðburðaríka sjómennsku að baki, hafði siglt á fiskiskipum og kaupskipum, fyrst sem stýrimaður og síðan skipstjóri, bæði á íslenskum og dönskum skipum. Hann hafði orð á sér fyrir að vera sægarpur og unnið sér nokkra frægð eftir að hann, þá stýrimaður á Dettifossi, tók þátt í að bjarga áhöfn þýska togarans Lübeck vorið 1932. Lárus stýrði skipsbátnum að strandstað í miklum stormi og brimsjó og sótti mennina í togarann. Þáverandi forseti Þýskalands, Hindenburg hershöfðingi, sæmdi Lárus og skipstjóra Dettifoss heiðurspeningum fyrir þetta afrek.[ix]

Um tíma stýrði Lárus skipi á vegum Hlutleysisnefndarinnar svokölluðu (Non-Intervention Committee), sem hafði eftirlit við strendur Spánar þegar borgarastyrjöldin stóð þar sem hæst til að koma í veg fyrir að stríðandi fylkingum bærust vopn frá erlendum aðilum.[x] Hann hafði því viðdvöl á Spáni „innan um eldsprengjur, loftárásir og annan djöfulskap.“[xi] Og hann hafði svo sannarlega lent í lífsháska á Spáni:

„Eitt sinn vorum við þrír að gangi frá skipi upp að pakkhúsi og var ég á milli þeirra. Skyndilega dundu yfir okkur eldglæringar og drunur svo að við fleygðum okkur allir niður á hafnarbakkann. Þegar ég stóð upp aftur fann ég þann sem var til hægri handar mér með afskorna báðar fætur uppi við nára, en hinn kviðristan með innyflin öll úti.“[xii]

Þremenningarnir völdu fjóra Íslendinga aðra til ferðarinnar, sem þeir töldu líklega til að vera liðtækir á siglingunni. Voru það augnlæknirinn Úlfar Þórðarson og lyflæknirinn Theodór Skúlason, sem þóttu sérstaklega mikilvægir ef slys bæri að höndum, Konráð Jónsson, verslunarmaður hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, og Björgvin Fredriksen, vélvirkjameistari, sem staddur var í Danmörku til að semja við forstjóra Buch-verksmiðjunnar um kaup á vélum.[xiii]

Þessir menn reyndust allir fúsir til þess að taka á sig áhættuna samfara ævintýrinu í von um að komast heim til Íslands, þó að þeir hefðu nær enga reynslu af sjómennsku og báturinn væri hryggðarmynd. Sjómenn í Frederikshavn sögðu þetta manndrápsfleytu sem aldrei kæmist yfir Atlantshafið og í áhöfninni væru „sjö vitlausir Íslendingar sem ætluðu að drekkja sér.“[xiv]

Áhöfn Frekjunnar: Frá vinstri: Gísli Jónsson 1. vélstjóri og upphafsmaður ferðarinnar, Björgvin Fredriksen 2. vélstjóri, Konráð Jónsson háseti, Theodór Skúlason háseti, Lárus Blöndal skipstjóri og Úlfar Þórðarson bryti. Gunnar Guðjónsson, sem fékk stöðu 1. stýrimanns, tók myndina.
Áhöfn Frekjunnar: Frá vinstri: Gísli Jónsson 1. vélstjóri og upphafsmaður ferðarinnar, Björgvin Fredriksen 2. vélstjóri, Konráð Jónsson háseti, Theodór Skúlason háseti, Lárus Blöndal skipstjóri og Úlfar Þórðarson bryti. Gunnar Guðjónsson, sem fékk stöðu 1. stýrimanns, tók myndina.

Vélbyssur og sprengjubrot

Tveimur dögum áður en þeir áformuðu að sigla gerðu Bretar loftárás á Frederikshavn og tókst næstum að binda varanlega enda á heimferðardrauma áhafnarinnar, einsog Lárus og áhöfn hans fengu að kynnast með hörkunni. Þeir sluppu þó með skrekkinn:

„Á leiðinni heim til gistihússins kvað allt í einu við hið nú gamalþekkta væl í loftvarnarsírenunni. Áður en við vissum af voru tvær enskar flugvélar komnar inn yfir bæinn og flugu lágt yfir höfðum okkar. Um leið varð allt vitlaust í kringum okkur. Ljóskastararnir ösluðu um himininn, vélbyssurnar og loftvarnarbyssurnar hömuðust og sprengjubrotum og flugeldum rigndi niður í kringum okkur. Við tvístruðumst og tókum til fótanna einsog hræddar kanínur.“[xv]

Í hinum langa og flókna undirbúningi málsins kvaðst Gísli hafa þurft að „beita meiri frekju en sæmilegt þykir í venjulegum viðskiptum til þess að opna oft harðlokaðar dyr,“[xvi] sem varð til þess að Gunnari hugkvæmdist nafn á skipið við hæfi. Frekjan skyldi fleyið heita. Þegar Gísli hafði fengið öll nauðsynleg skjöl í hendur hélt áhöfnin í íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn til að fá íslenska skráningu á bátinn og bátsverja. Þar tók á móti þeim Tryggvi Svörfuður Sveinbjörnsson, starfsmaður sendiráðsins:

„Þegar Tryggvi hafði jafnað sig á þessum málalyktum, eftir margra vikna þref (við sendiráðið) spurði hann Gísla, formfastur eins og jafnan, hvað skipið ætti að heita. „Frekjan,“ sagði Gísli, „hvernig líst yður á nafnið?“ Tryggvi renndi gleraugunum fram á nefbroddinn og svaraði: „Það á vel við yður“. [xvii]

Þjóðverjar hernámu Danmörku á mettíma, mótspyrnulítið eða mótspyrnulaust.
Þjóðverjar hernámu Danmörku á mettíma, mótspyrnulítið eða mótspyrnulaust.

Splundraðist í tætlur

Frekjan sigldi 21. júlí frá Danmörku áleiðis til fyrsta viðkomustaðar síns, Kristiansand í Noregi, eftir leið sem þýska herstjórnin hafði fyrirskipað og merkt á sjókort. Þegar skipið hafði siglt aðeins nokkrar mílur kom einn bátsverja auga á tundurdufl í sjónum. Lárus brá skjótt við, snarsneri stýrinu á stjórnborða og „í sömu mund kastast skipið fram hjá tundurdufli, marandi í hálfu kafi svo sem einn metra frá bakborðshlið skipsins.“[xviii] Það voru „dufl til stjórnborða, dufl til bakborða, dufl beint fram undan“[xix], en alltaf tókst Lárusi að stýra framhjá þeim í tíma á undraverðan hátt. Skömmu síðar varð hann að „sigla í gegnum breitt belti af spýtnarusli, flekum frá lestaropnum, tunnum, kössum og öðru sem þögult en skýrt talaði sínu máli. Hér hafði auðsjáanlega sprungið upp skip alveg nýlega.“[xx] Gísli Jónsson lýsti þessum hluta leiðarinnar svo:

„Hafið umhverfis okkur var líkt og skógur. Hingað og þangað stóðu upp úr því stangir og siglutré á skipum, sem lágu sokkin í hrúgum meðfram ströndinni, raunaleg frásögn frá sjóorrustunni sem staðið hafði hér fyrir nokkrum vikum.“[xxi]

Þegar versnaði í sjóinn byrjaði „gamalt, úldið skolp, sem legið hafði á milli þilja, að skolast upp um allar síður og sendi frá sér um allan klefann svipaðan ilm og áburður úr safnþró á vordegi.“[xxii] Auk stybbunnar skall á vonskuveður, stöðugt gekk yfir bátinn og flestir mennirnir voru illa haldnir af sjóveiki. Rétt áður en myrkrið skall á blasti við þeim skelfileg sjón:

„Við sáum rétt hjá okkur hvar stór sænskur fiskibátur rakst á tundurdufl og sprakk í loft upp og splundraðist í tætlur. Nokkrum sekúndum seinna var ekkert af honum að sjá nema smágert spýtnabrak sem flaut á sjónum. Þetta var hræðileg sjón, en gerðist svo hratt og svo óvænt að maður áttaði sig ekki fyrr en allt var um garð gengið.“[xxiii]

Fengu ranga leið frá Þjóðverjum

Báturinn náði þó til Noregs og þá kom í ljós að fyrir einhvern misskilning eða handvömm, ekki nema svo ólíklega hafi viljað til að þar lægi illvilji að baki, hafði áhöfnin fengið uppgefna ranga siglingarleið hjá þýsku herstjórninni. Henni hafði raunar verið gert að sigla hafsvæði þar sem nýbúið var að leggja sæg af tundurduflum. Íslensku sæfararnir máttu því prísa sínu sæla að hafa sloppið lifandi frá fyrsta áfanga ferðarinnar og má eflaust þakka það siglingahæfileikum Lárusar fyrst og fremst. Frekjan sigldi á milli norsku strandbæjanna samkvæmt fyrirmælum Þjóðverja og komu að lokum til Bergen þann 2. ágúst, sem ákveðið hafði verið að yrði lokaviðkomustaður fyrir heimsiglinguna. Í Bergen blasti við þeim mesta eyðileggingin af völdum stríðsins í þeim norsku bæjum sem þeir neyddust til að hafa viðkomu í meðan á ferðinni stóð. Eitt hverfi niður við höfnina var brunnið til ösku, olíutankar voru sundursprengdir og leikhús og banki í borginni voru skemmd af sprengjuárás. Lífið gekk þó sinn vangagang að þeim virtist „nema bara að það er allt öðruvísi.“[xxiv]

Leitin að dularfulla hattinum

Þýskir herforingjar á vegum hafnarstjórnarinnar komu strax til að rannsaka áhöfnina og skipið. Eftir nokkra stund var Íslendingunum tilkynnt að þeir mættu ferðast um borgina að vild, en þeim væri þó óheimilt að láta úr höfn að sinni. Ástæðan var sú að aðvara þurfti allar varðstöðvar Þjóðverja við strendur Noregs, um 150 alls, bæði á sjó, landi og í lofti, um að Frekjan mætti sigla óhindruð.[xxv]

Um kvöldið sneru þýsku herforingjarnir aftur um borð í Frekjuna í boði Gunnars skipamiðlara og Lárusar skipstjóra, og með þeim einn borgaralega klæddur Þjóðverji. Það var náungi að nafni Friedrich Klein, starfsmaður þýsku leyniþjónustunnar Abwehr í Bergen, en hann kynnti sig hins vegar sem Kapitänleutnant zur See. Hafnarstjórinn í Bergen hafði sagt honum af ferð Frekjunnar og Klein fengið þá hugmynd að kannski væri unnt að fá einhvern bátsverjann til að gegna erindum Þriðja ríkisins á Íslandi.[xxvi] Áhöfnin vissi vitaskuld ekki hvað vakti fyrir þessum ókunna gesti og óvíst að hún hefði verið jafn gestrisin og raun bar vitni ef hún hefði gert sér grein fyrir að hann lék tveimur skjöldum.

Þjóðverjarnir þáðu danskan bjór og veitingar hjá bátsverjum. Menn röbbuðu saman, drukku og sungu þýska hersöngva, þýsk þjóðlög og þýska ættjarðarsöngva fram á rauða nótt. Þegar Þjóðverjarnir tygjuðu sig til brottfarar þóttist einn þeirra ekki finna hatt sinn og leitaði í öllum krókum og kimum með vasaljós í hönd, um öll rúmfletin og undir koddum en fann ekkert „sem varla var von, því að hann kom hattlaus út í skipið um kvöldið.“[xxvii] Áhöfnina grunaði fljótt að leitin að uppskáldaða hattinum væri gerð í því skyni að skima eftir skjölum eða einhverju sem tengst gæti njósnum.

Íslenski böðullinn í Noregi

Hvorki í ferðasögu Frekjunnar, sem Gísli Jónsson skráði, né í viðtölum við áhöfnina síðar meir, er þess getið að í hópi gestanna um borð þessa kvöldstund var líka ungur Íslendingur, búsettur í Bergen. Sá maður hét Ólafur Pétursson og stundaði nám í endurskoðun í borginni. Ólafur hafði ætlað á samkomu í miðbænum um kvöldið en uppselt verið á hana og hann því rölt niður á höfn. Þar kom hann sér til furðu auga á óásjálegt bátskrifli við bryggju sem á var málað stórum stöfum „Frekjan Ísland“, auk þess sem íslenski fáninn var málaður á byrðinginn og blakti við hún. Um borð reyndust líka Íslendingar sem buðu hann hjartanlega velkominn, veittu honum bjór og annað áfengi að vild og röktu æsilega ferðasöguna til þessa.

Úlfar augnlæknir segir frá því í ævisögu sinni að flestir hafi þeir kannast við Ólaf frá fyrri árum í Reykjavík en „okkur fannst öll hans hegðun þarna um nóttina heldur einkennileg og áttuðum okkur satt að segja ekki á honum.“[xxviii] Til einhverra orðaskipta kom þeirra á milli rétt fyrir kveðjustund og blandaði Klein sér skyndilega í karpið. Úlfar lýsti þessum atburðum:

„Þegar leyniþjónustumaðurinn Klein, sem nú var einnig orðinn draugfullur, heyrði að okkur hefði sinnast við Ólaf dró hann upp skammbyssu og sagði:

„Nú ætla ég að skjóta þennan djöfuls hund.“

„Það er ágætt,“ sagði ég, „skjóttu hann endilega – en ekki hér. Þetta er íslenskt svæði. Farðu með hann upp á bryggju og skjóttu hann þar.“

„Já, það er rétt, alveg rétt hjá þér. Ég ætla að skjóta þennan djöful,“ tautaði Klein og skjögraði í land. Ekkert varð nú úr þeim fyrirætlunum hans. Skömmu seinna var ekki annað að sjá en vel færi á með þeim því að við horfðum á eftir þeim Ólafi staulast saman, arm í arm, upp bryggjuna.“[xxix]

Þessi káta kvöldstund leiddi Klein og samstarfsmönnum hans í Abwehr fyrir sjónir að Ólafur var ákaflega hliðhollur málstað Þjóðverja. Nokkrum dögum síðar kölluðu þeir hann á sinn fund. Eftir að hafa vingast við hann og unnið trúnað með örlæti og skjalli, fóru þeir þess á leit við hann að hann færi sem njósnari Þjóðverja til Íslands, með flugvél, skipi eða kafbáti. Ólafur hafnaði því góða boði en samþykkti þegar fram liðu stundir að gerast handbendi þýsku leyniþjónustunnar. Hann átti að ljóstra upp um Norðmenn og aðra sem hann kæmist á snoðir um að væru andsnúnir hagsmunum eða sjónarmiðum Þjóðverja með einhverjum hætti, einkum þó andspyrnumenn.

Ólafur var afkastamikill í því ógeðfellda starfi næsta hálfa annað árið og er talið sannað að hann hafi svikið ekki færri en 45 manns í hendur Gestapo; þar af létust tæplega 30 í klóm nasista. Einn þeirra sem lenti í grimmilegri fangabúðavist vegna uppljóstrana Ólafs var Íslendingurinn Leifur Muller, en hann hafði unnið það eitt sér til óhelgi að trúa Ólafi fyrir að hann væri að reyna að komast til Íslands. Leifur sagði seinna að hann hefði „treyst þeim manni sem ég síst af öllum mátti treysta.“[xxx] Þjóðverjar töldu Ólaf „án efa einn af bestu njósnurum sem Þjóðverjar höfðu í Noregi öll stríðsárin.“[xxxi] Úlfar augnlæknir kvaðst hafa alltaf hafa fundist það „jafnerfitt og sárt að hugsa til þess að upphafið að óhæfuverkum Ólafs megi ef til vill rekja til heimsóknarinnar um borð í Frekjuna.“[xxxii]

Samdrykkjan og söngurinn um ágústkvöldið um borð í Frekjunni reyndist því hafa lengri og hörmulegri eftirköst en Lárus skipstjóra og félaga hans óraði fyrir. Þess má hins vegar geta að Gunnar skipamiðlari kvaðst hafa haft grun um flestir þeir Þjóðverjar sem urðu á vegi þeirra í Noregi hafi talið að áhöfnin væri á leið til Íslands á vegum Þriðja ríkisins og því bæri þeim að leggja sem fæsta steina í götu þeirra. [xxxiii] Úlfar augnlæknir segir að bátsverjar hafi jafnvel ýtt undir þann skilning:

„Ég held nú, satt best að segja kannski, að við höfum látið í það skína að við værum ekki með hernaðarleyndarmál, heldur hitt, að við værum í „sérstökum erindum“. Það væri ekki hægt að tala nánar um þetta, en að það væru „sérstök erindi“ sem við ættum að reka.“[xxxiv] Flest hafi a.m.k. bent til að Þjóðverjarnir í Noregi hafi talið ferð þeirra einungis yfirskin og tilgangurinn væri í raun leynilegur og í þágu Þriðja ríkisins. Foringinn hefði augljóslega valið sérstaklega hugrakka og vel menntaða menn til „sinna mikilvægu verki á Íslandi.“[xxxv]

Næstum sigldir í kaf

Lárus stýrði Frekjunni frá Bergen yfir úfið Atlantshafið áleiðis til Færeyja og fljótlega gerði ruddaveður. „Frekjan tók þungar dýfur, stakk sér ofan í öldudalina og lyfti sér einsog fugl upp á næstu báru, sem þó virtist ætla að falla yfir hana og færa hana í kaf. Gusurnar gengu ofan í hásetaklefann, í vélarrúmið, inn í stýrishúsið. Allt var fljótandi í leka og vatni og ógerningur að kveikja upp eld. Allt sem var ekki bundið eða neglt þeyttist fram og aftur.“[xxxvi] Þegar áhafnarmeðlimir lögðust hundvotir, hraktir og skjálfandi í koju ávarpaði Lárus þá: „Strákar mínir. Farið þið nú með bænirnar ykkar – ekki mun ykkur veita af því.“[xxxvii]

Lárus Blöndal skipstjóri Frekjunnar.
Lárus Blöndal skipstjóri Frekjunnar.

Eftir nokkra sólarhringa siglingu í aftakaveðri náðu þeir Færeyjum. Þar létu Bretar vopnaða hermenn gæta Frekjunnar dag og nótt, bundu hana við herskip og og bönnuðu bátsverjum öll samskipti við heimamenn. Framkoma þeir bar „vott um hina mestu tortryggni í okkar garð.“ Farið var með þá „einsog fanga án þess þó að við hefðum gefið nokkurt tilefni til þess.“[xxxviii] En þeim var loks sleppt og fengu að halda áfram förinni heimleiðis.

Frekjan í Reykjavíkurhöfn eftir mikla ævintýraför.
Frekjan í Reykjavíkurhöfn eftir mikla ævintýraför.

Þrátt fyrir illviðri, storma og mikinn sjógang, tundurdufl, kafbáta og flugvélar, tókst Frekjunni að komast slysalaust frá Danmörku til Noregs og þaðan til Íslands. Þetta var afrek, enda lítill bátur og lélegur með óvana áhöfn, fyrir utan Lárus skipstjóra og að hluta til Gísla. Fyrst og fremst mátti þakka því hversu vel fór að með „mestu nákvæmni hafði Lárus þrætt þetta allt slysalaust án leiðsögu, aðeins uppdrætti og eigin hyggjuviti, enda hvarflaði hann aldrei frá stjórn allan tímann.“[xxxix]

Lárusi lukkaðist að bjarga bátnum og áhöfn seinast skammt utan við Íslandsstrendur. Þá sigldi breskur togari á fullri ferð Frekjuna næstum niður, ólýsta um hánótt. Um hálfan metra fyrir framan bátinn „tókst Lárusi með snarræði að beygja frá honum og forðast á síðasta augnabliki að hann sigldi okkur í kaf. Frekjan straukst rétt við skut togarans, þar sem hann þeyttist framhjá.“[xl]

Frekjan dólaði inn í Reykjavíkurhöfn rétt eftir miðnætti 12. ágúst, að lokinni þriggja vikna svaðilför, fyrsta skipið sem kom til Íslands frá Danmörku og Noregi eftir að Þjóðverjar hernámu löndin tvö: „Þegar báturinn sveigði upp að hafnarbakkanum lék um hann kastljós, sem beint var úr einum glugganum á hafnarskrifstofunni [þar var „Port Control“, eða hafnarvakt breska setuliðsins til húsa]. Þær fáu hræður sem voru á hafnarbakkanum sáu í ljósglampanum að íslenski fáninn var málaður á byrðing skipsins, svo og nafnið – FREKJAN.“[xli]

Bátsverjarnir klöngruðust upp á bryggju „fúlskeggjaðir og sjóhrakningslegir,“[xlii] og var fagnað sem hetjum. Þremur mánuðum áður höfðu Íslendingar reynt á eigin skinni niðurlæginguna samfara erlendri hertöku lands og þjóðar, og þá þyrsti í táknmyndir um dirfsku og dug. Fyrir vikið spöruðu fjölmiðlar ekki stóru orðin: „Hér hefir verið sýndur mikill myndarskapur, mikil karlmennska, mikill dugnaður. Af slíkum eiginleikum á þjóðin aldrei of mikið. Þess vegna er fagnað hvert sinn sem íslenskir menn vinna afrek, eins og hér hefur gert verið.“[xliii]

Skipstjórinn hverfur

Fljótlega eftir frækilega heimför Frekjunnar varð Lárus skipstjóri á fiskflutningaskipum á milli Íslands og Englands, og það var í landlegu í einni af þeim ferðum sem hann lenti í haldi Breta.

Bretar gerðu skiljanlega ýmsar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að menn væru á þvælingi um England án tilskilinna leyfa og skilríkja, fyrst og fremst vegna ótta við njósnir. Lárusi virðist hafa verið ókunnugt um þær ráðstafanir eða látið skeika að sköpuðu. Þegar hann fór án heimildar yfir sýslumörk, ef svo má segja, fóru leikar vitaskuld svo að hann var handtekinn, enda útlendingur án leyfis til ferðalaga um landið í miðri styrjöld.

Yfirvöld lokuðu hann hið snarasta inn í London Reception Centre, þar sem sauðirnir voru skildir frá höfrunum, þ.e. reynt var með yfirheyrslum og bakgrunnskönnunum að athuga hvort útlendingarnir sem þar voru geymdir teldust meinlausir eða hugsanleg ógn við hagsmuni Breta. Á stríðsárunum voru um 30 þúsund manns vistaðir þar í lengri og skemmri tíma, á meðan þeir biðu örlaga sinna. Líklegt má teljast að Bretar hafi einkum talið Lárus áhugaverðan vegna siglingar Frekjunnar, enda auðvelt að þykja tortryggilegt að forvígismenn hennar höfðu aflað sér leyfis frá þýsku herstjórninni til að sigla frá Danmörku til Íslands, lönd sem helstu óvinir í styrjöldinni höfðu hernumið. Þess má geta að nafn Lárusar var á Z-listanum svokallaða; listi með nöfnum þeirra Íslendinga sem Bretar töldu hliðholla nasistum og ætluðu að handtaka samstundis ef til innrásar Þjóðverja kæmi.[xliv]

Yfirleitt tók þó aðeins viku eða tvær að fara ofan í saumana á fortíð manna og ákveða hvort þeim yrði sleppt eða haldið lengur, en forlögin voru Lárusi ekki vilhöll í þetta skipti. Hilmar Foss, aðstoðarmaður Péturs Benediktssonar, sendifulltrúa Íslands í London, fékk dag einn upphringingu frá skrifstofu útgerðarinnar sem Lárus vann fyrir í Fleetwood. Hilmar var spurður hvort sendifulltrúinn hefði haft einhverjar fregnir af skipstjóranum – hann hefði ekki skilað sér í skip og ekkert til hans spurst. Hilmar rak upp stór augu, enda hafði sendifulltrúinn yfirleitt af því veður ef bresk stjórnvöld voru að sýsla með mál Íslendinga, annaðhvort frá utanríkisráðuneytinu á Íslandi eða þeirri deild breska innanríkisráðuneytisins sem fór með mál Íslendinga ytra.

Hilmar fór á stúfana og hóf leit að Lárusi, en það reyndist hægara sagt en gert að hafa upp á skipstjóranum. Eftir miklar fyrirspurnir kom í ljós hverju sætti:

„Það vildi svo til að kona sem vann í breska innanríkisráðuneytinu missti son sinn í loftárás nóttina eftir að Lárus var handtekinn, og fékk áfall,“ sagði Hilmar „Hún mætti ekki í vinnu næstu vikurnar, þannig að skjöl Lárusar lágu ósnert á borðinu hjá henni heillengi.“[xlv]

Áhöfn Frekjunnar var fagnað eins og hetjum við heimkomuna.
Áhöfn Frekjunnar var fagnað eins og hetjum við heimkomuna.

„Takið þetta helvíti frá mér!”

Fyrir vikið dúsaði Lárusi í fangelsi Breta í fjörutíu daga og fjörutíu nætur, án þess að mál hans fengi vanabundna meðferð í kerfinu eða íslensk stjórnvöld væru látin vita af því að hann hefði verið handtekinn. Hilmari hugkvæmdist þá að hafa samband við Scotland Yard í von um að lögregluembættið gæti veitt liðsinni við leitina að Lárusi:

„Ég hringdi í Scotland Yard og þeir fundu hann eins og skot. Ég hringdi í fangelsisstjórann og sagði það kröfu íslensku ríkisstjórnarinnar að Lárus yrði látinn laus. „Í guðanna bænum takið þetta helvíti frá mér,“ sagði þá fangelsisstjórinn. „Ég skal meira að segja setja hann í leigubíl, láta hann fá allt sitt drasl og peninga líka til að hann geti borgað bílinn.“

Þá var það þannig að Lárus og norskur skipstjóri, sem komið hafði í bát frá Noregi, voru settir saman í herbergi. Þeir sögðust hins vegar vera kapteinar og bentu á að þeir hefðu fjórar strípur á einkennisbúningum sínum eins og skipherrar í breska sjóhernum, og ættu að fá meðhöndlun í samræmi við það. Lárus lét Bretana skipta á rúminu sínu á hverjum degi; hann sagði þeim að hann þyldi ekki skít.“[xlvi]

Þegar búið var að greiða úr öllum flækjum var Lárusi sleppt eftir fjörutíu daga fangavist hjá Bretum og gat haldið aftur í siglingar sem fyrr. Hann var skipstjóri á Hauki sem sökk í blíðskaparveðri, fulllestað sementi, suðvestur af Færeyjum í lok ágústmánaðar 1945 með ellefu manna áhöfn. Lárus gaf skipun um að láta björgunarbátana síga og fór sjálfur í loftskeytaklefann og braut innsiglið af loftskeytastöðinni, en slíkt mátti aðeins gera í neyðartilfellum á þessum tíma, þó svo að styrjöldinni væri lokið. Hann kallaði út nafn skipsins, staðarákvörðun og að Haukur væri að sökkva, áður en hann yfirgaf sjálfur skipið.[xlvii] Skipverjar reru í land, sem tók á annan sólarhring. Seinustu æviárin var Lárus Blöndal skipstjóri á olíuflutningaskipinu Þyrli, þangað til að hann fór í land vorið 1953 vegna illvígra veikinda. Hann lést af þeirra völdum í janúar 1954.

Bálför Frekjunnar

Af lekabyttunni og lukkufleyinu Frekjunni er það að lokum að segja að breski herinn notaði hana fyrstu árin eftir heimkomuna til flutninga á milli Hvalfjarðar og Reykjavíkur. Í byrjun sjöunda áratugarins var Frekjan síðan brennd til ösku inn við Elliðavog. Þar fuðraði upp bátur sem lét ekki mikið yfir sér, en geymdi magnaða sögu.

  • [i] Jón Björnsson: Vitið þér hvað gerðist í nótt? Vísir, 9. apríl 1965. [ii] Stefán Pálsson: “Niemand passieren.” Vísir, 9. apríl 1965. [iii] Vísir, 6. maí 1940. [iv] Guðmundur Magnússon: Skjótið bara, sama er mér. Morgunblaðið 21. september 2023. [v] Vísir, 12. ágúst 1940. [vi] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941. [vii] Morgunblaðið, 11. ágúst 1990. [viii] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941. [ix] Morgunblaðið 16. júní 1944. [x] Sjómannablaðið Víkingur, 1954. [xi] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941. [xii] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941. [xiii] Vísir, 9. apríl 1965. [xiv] Morgunblaðið, 11. ágúst 1990. [xv] Lesbók Morgunblaðsins, 18. ágúst 1940. [xvi] Morgunblaðið, 11. apríl 1968. [xvii] Morgunblaðið 11. ágúst 1990. [xviii] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941. [xix] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941. [xx] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941 [xxi] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941 [xxii] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941. [xxiii] Unnur Úlfarsdóttir: Úlfur Þórðarson læknir – æviminningar. Útg. Setberg, 2001. [xxiv] Lesbók Morgunblaðsins, 18. ágúst 1940. [xxv] Vísir, 12. ágúst 1940. [xxvi] Ásgeir Guðmundsson: Berlínarblús. Útg. Skrudda, 2009. [xxvii] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941 [xxviii] Unnur Úlfarsdóttir: Úlfur Þórðarson læknir – æviminningar. Útg. Setberg, 2001. [xxix] Unnur Úlfarsdóttir: Úlfur Þórðarson læknir – æviminningar. Útg. Setberg, 2001. [xxx] Garðar Sverrisson: Býr Íslendingur hér? Útg. Iðunn, 1988. [xxxi] Ásgeir Guðmundsson: Berlínar-blús. Útg. Skrudda, 2009. [xxxii] Unnur Úlfarsdóttir: Úlfur Þórðarson læknir – æviminningar. Útg. Setberg, 2001. [xxxiii] Skólablað MR, apríl 1988. [xxxiv] Valsblaðið, 30. tbl. 1972. [xxxv] Unnur Úlfarsdóttir: Úlfur Þórðarson læknir – æviminningar. Útg. Setberg, 2001. [xxxvi] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941 [xxxvii] Morgunblaðið, 21. júlí 1990. [xxxviii] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941 [xxxix] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941 [xl] Gísli Jónsson: Frekjan. Útg. Ingólfur Ástmarsson, 1941 [xli] Vísir, 12. ágúst 1940. [xlii] Alþýðumaðurinn, 13. ágúst 1940. [xliii] Vísir, 12. ágúst 1940. [xliv] Þór Whitehead: Bretarnir koma. Útg. Vaka-Helgafell, 1999. [xlv] Sindri Freysson: Viðtal við Hilmar Foss, 3. febrúar 2006. [xlvi] Sindri Freysson: Viðtal við Hilmar Foss, 3. febrúar 2006. [xlvii] Fálkinn, 16. apríl 1964.