Matvælaráðuneytið hefur kynnt áform um að hlutdeildarsetja grásleppu. Nýmæli í þessu máli er hugmynd um að sérstakur nýliðunarpottur verði tekinn frá innan 5,3% kerfisins. Lagt er til að úthlutun nýliðunaraflamarks verði til nokkurra ára, en að þeim tíma liðnum „hafi viðkomandi sjómanni tekist að kaupa sér varanlegar aflaheimildir,“ að því er segir í kynningu á Samráðsgátt stjórnvalda.

Þetta nýliðunaraflamark á að vera gjaldfrjálst að undanskildu greiðslu veiðigjaldi og þjónustugjalda.

Svæðisskipting

Þá er ætlunin að 2% hámark verði á samanlagðri aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila. Einnig er hugmyndin að svæðaskipta aflaheimildum og framsal aflaheimilda verði eingöngu heimilt innan tiltekinna svæða. Framsal milli svæða verði óheimilt, sem á að tryggja „að aflaheimildir hverfi ekki af tilteknum svæðum en veiti samt sem áður möguleika til hagkvæmari veiða innan svæðanna.“

Stefnt er að því að frumvarp verði lagt fram á Alþingi í febrúar, en árið 2020 hafði Kristján Þór Júlíusson lagt fram frumvarp um hlutdeildarsetningu grásleppuveiða, ásamt hlutdeildarsetningu sandkola og hryggleysingja. Svandís Svavarsdóttir lagði sambærilegt frumvarp fram eftir að hún tók við ráðherraembættinu, en sleppti þá grásleppuhluta þess.

Umdeilt

Landssamband smábátaeigenda hefur jafnan lagst gegn því að kvótasetja grásleppuveiðar, en á hinn bóginn hafa grásleppuveiðimenn almennt tekið vel í slíkar hugmyndir.

„Á undanförnum árum hefur veiðistjórn grásleppu sætt gagnrýni fyrir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg fyrir þá sem stunda veiðarnar,“ segir í kynningu stjórnvalda.

Með breytingunum eigi að tryggja „að veiðarnar verði sjálfbærar, en einnig getur hlutdeildarsetning orðið hvati til nýsköpunar þar sem aðilar reyna að fá sem mest verðmæti úr aflahlut sínum og stuðlað að bættri umgengni um auðlindina.“

Grásleppu landað á Húsavík í fyrra. FF MYND/Hafþór Hreiðarsson