Stjórn Hafnarsjóðs Norðurþings hefur hvatt stjórnvöld til að fresta innleiðingu laga um afnám tollfrelsis á skemmtiferðaskip og gefa höfnum þannig tíma til aðlögunar.

Málið var rætt á síðasta fundi hafnarstjórnarinnar þar sem fyrir var tekið bréf hagsmunasamtakanna AECO frá 6. september þar sem farið er yfir möguleg áhrif af afnámi tollfrelsis fyrir skemmtiferðaskip sem að óbreyttu tekur gildi um áramótin.

„Afleiðing gæti orðið að margar hafnir missi fjölda skipakoma,“ segir í fundargerð hafnarstjórnarinnar.

„Ljóst er að ef verður af þessum breytingum þá verður það talsverður skellur fyrir hafnirnar á minni ferðamannastöðum og fyrir uppbyggingu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni,“ segir hafnarstjórninni einnig.

Uppbygging í hættu

Á Húsavík hefur verið lagt í talsverða fjárfestingu til að ná viðskiptum við minni gerðina af skemmtiferðaskipum sem henta munu höfninni þar vel.

Íslensku samtökin Cruise Iceland hafa einnig ítrekað lýst áhyggjum sínum af afnámi tollfrelsisins. Frá því sagði í Fiskifréttum í september og síðan aftur í gær þar sem samtökin settu tölu á mögulegt tap vegna málsins. Þar er sagt um að tefla nærri ellefu milljarða króna tekjur sem verði í uppnámi.

„Cruise Iceland telur mjög mikilvægt að halda í tollfrelsið til að leiðangursskipin haldi áfram hringsiglingum til landsins þar sem að þau skapa miklar tekjur fyrir hafnir og sveitarfélög, ásamt því að stuðla að frekari uppbyggingu og viðhaldi í samræmi við stefnu hins opinbera sem lengst af hefur miðast af því að stuðla að dreifingu ferðamanna um landið,“ sagði meðal annars í fréttabréfi sem samtökin dreifðu til aðildarfyrirtækja sinna.

„Skrifræðið sem lagt er til við afnám tollfrelsisins er svo gríðarlegt og óframkvæmanlegt að það liggur í augum uppi að Ísland myndi hverfa af kortinu með afnámi tollfrelsis hvað hringsiglingar – eða sérstakar Íslandsferðir varðar,“ sagði einnig í fréttabréfinu.

Hafnasambandið tekur undir áhyggjur

Bréfið frá AECO var einnig lagt fram og rætt á fundi stjórnar Hafnasambands Íslands þann 9. september. Á þann fund mætti Sigurður Jökull Ólafsson, formaður Cruise Iceland sem jafnframt er markaðsstjóri Faxaflóahafna, og gerði grein fyrir málinu. Ræddi stjórnin um afleiðingar undanþágu tollfrelsis á minni hafnir og mögulega fækkun þeirra ásamt tekjumissi bæja á landsbyggðinni.

„Líta þarf til þess að sala ferða er löngu byrjuð og þarf því lengri frest áður en afnám tolla kemur til greina. Áhrifin gætu einnig leitt til þess að fækkun skipa rýri möguleika landsbyggðarinnar á að rafvæðast,“ bendir stjórn Hafnasambandsins á í fundargerð sinni.