Cruise Iceland, samtök hagsmunaaðila í kringum skemmtiferðaskip hér á landi, segja afar mikilvægt að afnám tollfrelsis skemmtiferðaskipa í hringsiglingum verði ekki að veruleika eins og í stefnir næsta vor eftir lagabreytingu á Alþingi.
Tollfrelsi á eldsneyti og önnur aðföng og vistir skemmtiferðaskipa sem hingað koma og eru um lengri tíma í siglingum í kringum landið var komið á fyrir um tveimur áratugum til að ýta undir slíka útgerð með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á minni byggðarlög umhverfis landið.
Að sögn Sigurðar Jökuls Ólafssonar, fulltrúa Faxaflóahafna í stjórn Cruise Iceland og formanns samtakanna, hefur verið þrýstingur á stjórnvöld að afnema þessa undanþágu. Hún hafi verið felld út og eins og staðan sé núna muni hún ekki gilda áfram á næsta ári.
Stuðla að dreifingu ferðamanna
„Cruise Iceland telur mjög mikilvægt að halda í tollfrelsið til að leiðangursskipin haldi áfram hringsiglingum til landsins þar sem að þau skapa miklar tekjur fyrir hafnir og sveitarfélög, ásamt því að stuðla að frekari uppbyggingu og viðhaldi í samræmi við stefnu hins opinbera sem lengst af hefur miðast af því að stuðla að dreifingu ferðamanna um landið,“ segir í fréttabréfi sem samtökin hafa dreift til aðildarfyrirtækja sinna.
Ísland í einstakri stöðu
Áfram segir í fréttabréfinu að komur þessara skemmtiferðaskipa séu því orðnar áríðandi þáttur í rekstri minni samfélaga á landsbyggðinni. Þau skapi dýrmætar tekjur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og sérstaklega samfélög úr alfaraleið.
„Efnahags- og fjármálaráðuneytið færði fram þau rök að slíkar undanþágur væru ekki veittar í nágrannalöndum okkar og að þær hafi verið settar á til að laða skemmtiferðaskip að í hringsiglingar sem rík ástæða var til. Í þessu felst að undanþágan náði markmiðum sínum og er Ísland í einstakri stöðu með hringsiglingar leiðangursskipa,“ er undirstrikað í fréttabréfinu.
Útheimtir gríðarlegt skrifræði
„Afnám tollfrelsis myndi verða til þess að slíkum siglingum yrði hætt, vegna þess skrifræðis sem afnámið myndi leiða til, og um leið grafa undan þjónustu á landsbyggðinni og fæla frá einn verðmætasta hóp skemmtiferðaskipa,“ segir Cruise Iceland. Nái afnám tollfrelsisins fram að ganga yrði tapið því töluvert meira en ávinningurinn fyrir ríkissjóð.
„Stærri skemmtiferðaskip sem hefja eða enda siglingar sínar í erlendum höfnum myndu áfram njóta tollfrelsis. Skrifræðið sem lagt er til við afnám tollfrelsisins er svo gríðarlegt og óframkvæmanlegt að það liggur í augum uppi að Ísland myndi hverfa af kortinu með afnámi tollfrelsis hvað hringsiglingar – eða sérstakar Íslandsferðir varðar,“ segir áfram í fréttabréfinu.
Lausnin flöt gjaldtaka
Þá segir að líklega verði lögð til málamiðlunarleið sem feli í sér eins konar flata gjaldtöku sem renni til nærsamfélags áfangastaðanna gegn því að tollfrelsinu verði viðhaldið áfram. Þá hafi Cruise Iceland ásamt AECO, sem eru alþjóðleg samtök skemmtiferðaskipa og samstarfsaðila sem starfa á norðurslóðum, skorað á stjórnvöld að rannsaka afleiðingarnar af afnámi tollfrelsisins. „Enda teljum við engar líkur á að breytingin sé hagfelld fyrir ríkissjóð eða íslenskt samfélag og efnahagslíf.“
Í fréttabréfinu er bent á að ekki sé hægt að bera skemmtiferðaskip saman við til dæmis hótel eða flug. Skemmtiferðaskipin sjálf séu alltaf andlag ferðarinnar.
„Ferðamenn fara ekki í ferðalög til að sitja í flugvél eða gista á hótelherbergjum heldur er það áfangastaðurinn sem skiptir máli, almennt,“ er útskýrt. „Með öðrum orðum, ef skemmtiferðaskip væri ekki í boði fyrir Íslandsferð þá myndi ferðamaðurinn velja ferð með skemmtiferðaskipi á annan áfangastað.“
Áhyggjur á landsbyggðinni
Sigurður Jökull Ólafsson segist hafa óskað eftir því ásamt varaformanni Cruise Iceland að ná fundi fjármálaráðherra til að ræða þetta mál sem sé augljóst landsbyggðarmál.
„Bæjarstjórar á landsbyggðinni hafa miklar áhyggjur af því að þetta eru heilmiklar tekjur fyrir atvinnulífið og samfélögin. Og mér er sagt að þingmenn á þessum svæðum séu uggandi af því að sveitarfélögin og hafnirnar munu missa spón úr aski sínum. Ef þessi peningur er tekinn í burtu þarf hann að koma úr hafnabótasjóði. Til langframa þá koma tekjurnar ekki og ríkissjóður gæti þurft að borga. Þannig að skynsemin í því er nú takmörkuð,“ segir formaður Cruise Iceland.
Eldgosin fæla ekki skemmtiferðaskipin frá
Vitnað er í bréfi Cruise Iceland til nýrrar skýrslu Reykjavík Economics í samstarfi við Faxaflóahafnir og fleiri þar sem efnahagsleg umsvif skemmtiferðaskipageirans á Íslandi voru metin á 37,2 milljarða króna árið 2023. „Geirinn hefur tífaldað farþegafjölda á tveimur áratugum og er góður sveiflujafnari fyrir ferðaþjónustuna í heild þar sem válegar fréttir af eldgosum virðast til dæmis ekki hafa áhrif fjölda ferðamanna með skemmtiferðaskipum.“
Cruise Iceland, samtök hagsmunaaðila í kringum skemmtiferðaskip hér á landi, segja afar mikilvægt að afnám tollfrelsis skemmtiferðaskipa í hringsiglingum verði ekki að veruleika eins og í stefnir næsta vor eftir lagabreytingu á Alþingi.
Tollfrelsi á eldsneyti og önnur aðföng og vistir skemmtiferðaskipa sem hingað koma og eru um lengri tíma í siglingum í kringum landið var komið á fyrir um tveimur áratugum til að ýta undir slíka útgerð með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á minni byggðarlög umhverfis landið.
Að sögn Sigurðar Jökuls Ólafssonar, fulltrúa Faxaflóahafna í stjórn Cruise Iceland og formanns samtakanna, hefur verið þrýstingur á stjórnvöld að afnema þessa undanþágu. Hún hafi verið felld út og eins og staðan sé núna muni hún ekki gilda áfram á næsta ári.
Stuðla að dreifingu ferðamanna
„Cruise Iceland telur mjög mikilvægt að halda í tollfrelsið til að leiðangursskipin haldi áfram hringsiglingum til landsins þar sem að þau skapa miklar tekjur fyrir hafnir og sveitarfélög, ásamt því að stuðla að frekari uppbyggingu og viðhaldi í samræmi við stefnu hins opinbera sem lengst af hefur miðast af því að stuðla að dreifingu ferðamanna um landið,“ segir í fréttabréfi sem samtökin hafa dreift til aðildarfyrirtækja sinna.
Ísland í einstakri stöðu
Áfram segir í fréttabréfinu að komur þessara skemmtiferðaskipa séu því orðnar áríðandi þáttur í rekstri minni samfélaga á landsbyggðinni. Þau skapi dýrmætar tekjur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og sérstaklega samfélög úr alfaraleið.
„Efnahags- og fjármálaráðuneytið færði fram þau rök að slíkar undanþágur væru ekki veittar í nágrannalöndum okkar og að þær hafi verið settar á til að laða skemmtiferðaskip að í hringsiglingar sem rík ástæða var til. Í þessu felst að undanþágan náði markmiðum sínum og er Ísland í einstakri stöðu með hringsiglingar leiðangursskipa,“ er undirstrikað í fréttabréfinu.
Útheimtir gríðarlegt skrifræði
„Afnám tollfrelsis myndi verða til þess að slíkum siglingum yrði hætt, vegna þess skrifræðis sem afnámið myndi leiða til, og um leið grafa undan þjónustu á landsbyggðinni og fæla frá einn verðmætasta hóp skemmtiferðaskipa,“ segir Cruise Iceland. Nái afnám tollfrelsisins fram að ganga yrði tapið því töluvert meira en ávinningurinn fyrir ríkissjóð.
„Stærri skemmtiferðaskip sem hefja eða enda siglingar sínar í erlendum höfnum myndu áfram njóta tollfrelsis. Skrifræðið sem lagt er til við afnám tollfrelsisins er svo gríðarlegt og óframkvæmanlegt að það liggur í augum uppi að Ísland myndi hverfa af kortinu með afnámi tollfrelsis hvað hringsiglingar – eða sérstakar Íslandsferðir varðar,“ segir áfram í fréttabréfinu.
Lausnin flöt gjaldtaka
Þá segir að líklega verði lögð til málamiðlunarleið sem feli í sér eins konar flata gjaldtöku sem renni til nærsamfélags áfangastaðanna gegn því að tollfrelsinu verði viðhaldið áfram. Þá hafi Cruise Iceland ásamt AECO, sem eru alþjóðleg samtök skemmtiferðaskipa og samstarfsaðila sem starfa á norðurslóðum, skorað á stjórnvöld að rannsaka afleiðingarnar af afnámi tollfrelsisins. „Enda teljum við engar líkur á að breytingin sé hagfelld fyrir ríkissjóð eða íslenskt samfélag og efnahagslíf.“
Í fréttabréfinu er bent á að ekki sé hægt að bera skemmtiferðaskip saman við til dæmis hótel eða flug. Skemmtiferðaskipin sjálf séu alltaf andlag ferðarinnar.
„Ferðamenn fara ekki í ferðalög til að sitja í flugvél eða gista á hótelherbergjum heldur er það áfangastaðurinn sem skiptir máli, almennt,“ er útskýrt. „Með öðrum orðum, ef skemmtiferðaskip væri ekki í boði fyrir Íslandsferð þá myndi ferðamaðurinn velja ferð með skemmtiferðaskipi á annan áfangastað.“
Áhyggjur á landsbyggðinni
Sigurður Jökull Ólafsson segist hafa óskað eftir því ásamt varaformanni Cruise Iceland að ná fundi fjármálaráðherra til að ræða þetta mál sem sé augljóst landsbyggðarmál.
„Bæjarstjórar á landsbyggðinni hafa miklar áhyggjur af því að þetta eru heilmiklar tekjur fyrir atvinnulífið og samfélögin. Og mér er sagt að þingmenn á þessum svæðum séu uggandi af því að sveitarfélögin og hafnirnar munu missa spón úr aski sínum. Ef þessi peningur er tekinn í burtu þarf hann að koma úr hafnabótasjóði. Til langframa þá koma tekjurnar ekki og ríkissjóður gæti þurft að borga. Þannig að skynsemin í því er nú takmörkuð,“ segir formaður Cruise Iceland.
Eldgosin fæla ekki skemmtiferðaskipin frá
Vitnað er í bréfi Cruise Iceland til nýrrar skýrslu Reykjavík Economics í samstarfi við Faxaflóahafnir og fleiri þar sem efnahagsleg umsvif skemmtiferðaskipageirans á Íslandi voru metin á 37,2 milljarða króna árið 2023. „Geirinn hefur tífaldað farþegafjölda á tveimur áratugum og er góður sveiflujafnari fyrir ferðaþjónustuna í heild þar sem válegar fréttir af eldgosum virðast til dæmis ekki hafa áhrif fjölda ferðamanna með skemmtiferðaskipum.“