Ísfisktogarinn Hulda Björnsdóttir GK frá Grindavík landaði í Hafnarfirði í gær. Allur þorskur og ýsa úr afla skipsins fór til vinnslu hjá Vísi í Grindavík en þar var um að ræða um 60 tonn. Annar afli var seldur á markaði. Hulda Björnsdóttir kom til landsins frá Vigo á Spáni þar sem hún var smíðuð um miðjan október í fyrra.
Stórfiskurinn, sem Vísir tók til vinnslu, fór til saltfiskverkunar en smærri fiskur var flakaður og frystur. Fiskurinn þótti góður í alla staði og gengur vel að vinna hann. Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis er mjög ánægður með samvinnu Vísis og útgerðar Huldu Björnsdóttur.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
„Samvinna eins og þessi er til fyrirmyndar og mikilvæg fyrir Grindavík. Óveðrið að undanförnu hefur haft áhrif á veiðar og það var þörf á því að fá afla til vinnslu frá öðrum en okkar eigin skipum. Aflinn sem kom frá Huldu Björnsdóttur í gær kom sér vel og mikilvægt er að Grindvíkingar vinni saman í framtíðinni,” sagði Pétur.