Samkvæmt opinberum tölum jókst afli breskra skipa sem landað var í Bretlandi um 21% á árinu 2014 miðað við fyrra ár og aflaverðmætin, þar með talin verðmæti skelfisks, um 16%.
Bresk skip lönduðu samtals 756.000 tonnum í Bretlandi og í útlöndum og heildar aflaverðmætið var 861 milljón punda, um tæplega 170 milljarðar íslenskra króna.
Aukningu í afla má einkum rekja til 76% aukningar í makrílveiðum á grunni stóraukins kvóta í þeirri tegund.
Uppsjávartegundir, eins og makríll og síld, voru fyrirferðamestar í veiðinni, eða 58% alls landaðs afla, en stóðu einungis undir 32% af heildarverðmætunum.
Breski fiskiskipaflotinn er sá sjötti stærsti af Evrópusambandsríkjunum í fjölda skipa talið, en hann er í öðru sæti í afkastagetu og fjórða sæti yfir samanlegt vélarafl.
Fastráðnir sjómenn á Bretlandi eru 11.800 talsins og um 2.100 til viðbótar eru lausamenn.
Peterhead, sem er á austasta tanga Skotlands, er sem fyrr stærsta löndunarhöfnin í Bretlandi. Þar var landað alls 159.000 tonnum að verðmæti 28,5 milljarðar íslenskra króna. Brixham var stærsta löndunarhöfnin í Englandi og skammt undan var Newlyn.
Útflutningur sjávarafurða jókst um 10% á síðasta ári miðað við 2013 og fór í 499.000 tonn.
Á sama tímabili voru flutt inn 721 tonn af sjávarafurðum til Bretlands, sem er 3% samdráttur.