Verðmæti afla upp úr sjó nam nærri 13,4 milljörðum króna í maí, það er 5,4% meira en í maí 2014, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.
Verðmæti þorsks var mest eða tæpir 4,8 milljarðar króna sem er 2% aukning miðað við maí í fyrra. Verðmæti ufsa jókst um 40% miðað við sama mánuð í fyrra en í heild var aflaverðmæti botnfisks svipað á milli ára. Flatfiskaflinn jókst um 49% að verðmæti og munar þar mest um grálúðu og skarkola. Af uppsjávartegundum veiddist nær eingöngu kolmunni í maí en aflaverðmæti hans jókst um 16,6% samanborið við maí 2014. Verðmæti skel- og krabbadýraafla dróst saman um 20% miðað við maí 2014.
Á tólf mánaða tímabili frá júní 2014 til maí 2015 jókst aflaverðmæti um 7,5% miðað við sama tímabil ári áður. Verðmæti uppsjávarafla jókst um 22,8% milli tímabilanna, og munar þar mest um loðnu og kolmunna. Einnig jókst verðmæti þorsks um 11,9%.