Fiskveiðar gegna stöðugt mikilvægara hlutverki í efnahag Skotlands. Á síðasta ári var verðmæti alls landaðs sjávarafla í landinu um 500 milljónir punda, sem eru tæpir 98 milljarðar ÍSK á núverandi gengi. Þar af lönduðu skosk fiskiskip 366.400 tonnum að verðmæti 429 milljóna punda, tæplega 84 milljarða ÍSK.

Fiskiskipaflotinn í Skotlandi hefur minnkað verulega á síðustu tíu árum, eða um allt að 60%. Þau eru 550 talsins, þar af 200 undir 15 metra löng.

Verðmæti landaðs uppsjávarfisks á síðasta ári var um 30 milljarðar ÍSK en botnfiskur skilaði 27,2 milljörðum ÍSK og skelfiskur 27 milljörðum. Mikilvægasta einstaka tegundin í veiðum Skota er makríll. Aflaverðmæti hans á síðasta ári var um 24,6 milljarðar ÍSK.

Mikilvægustu verstöðvarnar eru Peterhead og Hjaltlandseyjar, þar sem á síðasta ári var landað samtals 220.000 tonna afla að verðmæti um 44 milljarðar ÍSK. Frá Hjaltlandseyjum er stutt á gjöful mið fyrir hvítfisk og uppsjávarfisk. Eyjarnar leika stöðugt mikilvægara hlutverk í breskum sjávarútvegi. Þar búa um 22.000 manns og nam verðmæti landaðs afla á síðasta ári um 19,5 milljörðum ÍSK. Til samanburðar má nefna að í  Vestmannaeyjum búa 4.276 manns en aflaverðmætið þar á síðasta ári var rúmlega 16 milljarðar ÍSK. Fiskveiðar eru um 30% af heildartekjum Hjaltlandseyja.