Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 9,4 milljörðum í júlí sem er samdráttur um 2,8 milljarða eða ríflega 23% samanborið við júlí 2015, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.
Aflaverðmæti botnfisks nam 5,7 milljörðum og dróst saman um tæp 13% frá fyrra ári. Verðmæti uppsjávartegunda nam tæpum 2,4 milljörðum sem er um 40% minna en í júlí 2015. Verðmæti flatfiskafla nam rúmum 970 milljónum sem er samdráttur um 26% frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraaflinn nam 355 milljónum í júlí samanborið við tæpar 513 milljónir í júlí 2015.
Á 12 mánaða tímabili frá ágúst 2015 til júlí 2016 var samanlagt aflaverðmæti tæpir 137 milljarðar króna sem er 10,6% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr. Munar þar mestu um ríflega 38% samdrátt í verðmæti uppsjávartegunda.