Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 69,5 milljörðum króna á fyrstu fimm mánuðum ársins 2013 samanborið við 71,3 milljarða á sama tímabili 2012. Aflaverðmæti hefur því dregist saman um tæplega 1,9 milljarð króna eða 2,6% á milli ára, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar

Aflaverðmæti botnfisks var rúmlega 43 milljarðar króna og dróst saman um 5,9% miðað við sama tímabil í fyrra. Verðmæti þorskafla var um 21,7 milljarðar og dróst saman um 10,0% frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam 5,8 milljörðum og dróst saman um 15,5% en verðmæti karfaaflans nam rúmum 6,5 milljörðum, sem er 9,6% samdráttur frá fyrstu fimm mánuðum ársins 2012. Verðmæti úthafskarfa nam 1,8 milljarði króna á fyrstu fimm mánuðum ársins og jókst um 279,2% miðað við sama tímabil í fyrra. Verðmæti ufsaaflans jókst um 17,0% milli ára og nam tæpum 4 milljörðum króna í janúar til maí 2013.

Verðmæti uppsjávarafla nam tæpum 19,2 milljörðum króna í janúar til maí 2013, sem er um 11,6% aukning frá fyrra ári. Sú aukning skýrist að mestu af loðnuafla og kolmunnaafla. Aflaverðmæti loðnu nam 15,6 milljörðum króna á fyrstu fimm mánuðum ársins sem er 19,2% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Aflaverðmæti kolmunna jókst um 9,4% frá fyrra ári og var um 2,8 milljarðar króna í janúar til maí 2013. Aflaverðmæti flatfisksafla nam tæpum 4,3 milljörðum króna, sem er 22,9% samdráttur frá janúar til maí 2012.