Verðmæti sjávarafla íslenskra skipa í maí nam 11,6 milljörðum króna sem er 4,5 prósent aukning miðað við maí 2017. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands í morgun.

Á tólf mánaða tímabili, frá júní 2017 til maí 2018, nam aflaverðmæti úr sjó rúmum 122 milljörðum króna sem er 6,3 prósent aukning miðað við sama tímabil ári fyrr.

Í maí dróst verðmæti botnfiskaflans saman um 4,6 prósent miðað við maí ári áður, en verðmæti uppsjávarafla jókst um 44,8 prósent milli þessara tveggja mánaða og verðmæti flatfiskaflans um 32,5 prósent.

Á tólf mánaða tímabilinu frá júní 2017 til maí 2018 jókst verðmæti botnfiskaflans hins vegar um 10,3 prósent frá sama tímabili ári fyrr, verðmæti flatfiskaflans jókst um 23,1 prósent en verðmæti uppsjávaraflans dróst saman um 8,4 prósent.

Nánar má lesa um aflaverðmæti úr sjó á vef Hagstofunnar.

Verð í erlendri mynt áfram hátt
Á þriðjudag sendi síðan hagfræðideild Landsbanka Íslands frá sér Hagsjá þar sem fram kemur að verð íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt hafi „áfram haldist hátt á síðustu mánuðum og er það nú nálægt því sögulega hámarki sem það náði í janúar á síðasta ári.“

Þar segir einnig: „Verðið hefur verið í mjög ákveðnum hækkunarfasa allar götur síðan í byrjun árs 2013, eða í rúm fimm ár.“

Fram kemur að verðið hafi lækkað töluvert árið 2009 en tók síðan að hækka um hríð og náði hámarki tímabundið í kringum áramótin 2011 til 2012. Síðan hafi það lækkað á ný en frá ársbyrjun 2013 hafi það hækkað nær stöðugt.

„Frá því að verðið náði tímabundnu lágmarki í febrúar 2013 hefur það hækkað um 27,7%. Það gerir um 4,6% hækkun á ársgrundvelli.“

Hagfræðideild bankans segir aukið útflutningsverðmæti sjávarafurða að miklu leyti skýrast af meiri útflutningi þorsks.

Vinnur gegn áhrifum styrkingar krónunnar
Þá segir deildin að þessi verðhækkun í erlendri mynt hafi dregið úr áhrifum styrkingar krónunnar.

„Hátt verð á botnfiski að undanförnu kemur sér vel fyrir íslenskan sjávarútveg sem nú glímir við minnkandi samkeppnishæfni vegna sterkrar krónu.“

Krónan hefur styrkst mikið frá árinu 2015, segir í Hagsjánni. Milli áranna 2015 og 2016 hafi gengisvísitala krónunnar styrkst um 11,8 prósent og milli 2016 og 2017 hafi hún styrkst um 12,2 prósent. Hér sé um sögulegt met að ræða á styrkingu krónunnar milli ára.

„Til samanburðar hækkaði verð sjávarafurða í erlendri mynt um 4,5% milli 2015 og 2016 og um 5,7% milli 2016 og 2017. Út frá því má ætla að afurðaverð í krónum hafi lækkað um 6,5% milli 2015 og 2016 og 5,8% milli 2016 og 2017.“

Þá var gengisvísitala krónunnar 1,7 prósent veikari á fyrri helmingi ársins 2018 en á sama tímabili í fyrra, en milli sömu tímabila hafi afurðaverð í erlendri mynt hækkað um 4,6 prósent.

„Afurðaverð í krónum hækkaði því um 2,8% milli sömu tímabila.“

Nánar má lesa um þetta í Hagsjá greiningardeildarinnar.