Bresk fiskiskip lönduðu 627.000 tonnum heima og erlendis á síðasta ári fyrir jafnvirði 125 milljarða íslenskra króna. Aflaverðmætið minnkaði um 7% milli ára þrátt fyrir að aflinn hafi aukist um 5%. Ástæðan er fyrst og fremst mikil lækkun á verði uppsjávarfisks.
Til samanburðar má nefna að aflaverðmæti á Íslandi nam 160 milljörðum króna í fyrra fyrir 1,5 milljóna tonna afla.
Skelfiskur skilaði mestu í Bretlandi í fyrra eða 39% af heildaraflaverðmætinu, síðan kom botnfiskur (34%) og svo uppsjávarfiskur (27%).
Alls eru 6.400 skip í breska fiskiskipaflotanum og fiskimenn eru tæplega 12.500 talsins. Skosk fiskiskip veiddu 58% af heildaraflanum og ensk fiskiskip 30%.
Bretar flytja inn meira af fiski en þeir veiða eða 754.000 tonn á árinu 2012 sem var 5% aukning frá fyrra ári. Útflutningur þeirra nam á sama tíma 466.000 tonnum.