Rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi hófust 20. nóvember síðastliðinn og er afli í róðri ekki svipur hjá sjón miðað við síðustu vertíð, að því er fram kemur á vefnum aflafrettir.com
Sem dæmi er nefnt að Aldan ÍS sé búin að landa um 4 tonnum í 4 róðrum samanborið við 47 tonn úr 4 fyrstu róðrum sínum í fyrra og þar af var stærsti róðurinn tæp 16 tonn.
Gunnvör ÍS er með 3,5 tonn í 6 róðrum og árið 2011 var Gunnvör með 43 tonn í 6 fyrstu róðrum sínum.
Valur ÍS fékk nú 2,3 tonn í 4 róðrum en í fyrra var báturinn með 30 tonn í 4 fyrstu róðrum sínum.
Halldór Sigurðsson ÍS er með 922 kíló í 2 löndunum núna og í fyrra var báturinn með 15 tonn í 2 róðrum.
Vertíðin hófst að þessu sinni tæpum mánuði seinna en í fyrra og er kvótinn 300 tonn. Rétt er að nefna að vertíðin í fyrra var ævintýralega góð en síðuskrifari aflafretta.com segist hafa skoðað rækjuaflann í Djúpinu langt aftur í tímann og ekki fundið lélegri byrjun en nú.