Sérstaklega athygli hefur vakið í rannsóknum sem eru unnar í samstarfi sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar við norska kollega í CEES í Ósló að aðgreining á milli fargerða íslensks þorsks er að hluta til annars eðlis en á milli fargerða þorsks við Noreg. Þessi erfðafræðilegi aðskilnaður er talinn ævaforn og að hann hafi mótast vegna náttúruvals og aðlögunar tegundarinnar við Íslandsstrendur undanfarin 30.000 ár og í Norður-Atlantshafi undanfarin 0,4-1,66 milljón ár.

Hafrannsóknastofnun stendur nú fyrir sérstöku átaki í rannsóknum á stofnuppbyggingu og nýliðun í þorskstofninum við Ísland þar sem þessar niðurstöður leggja mikilvægan grunn að þekkingu.

Í nýlegri yfirlitsgrein sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar o.fl. er ítarlegt yfirlit yfir áratuga erfðarannsóknir á þorski við Íslandsstrendur. Greinin tekur saman rannsóknir allt frá sjöunda áratug síðustu aldar, þegar ensím rafdráttur var fyrst notaður til að ákvarða arfgerðir, til dagsins í dag þegar vísindamenn geta raðgreint allt erfðamengi þorsks. Höfundar greinarinnar benda m.a. á möguleikana sem felast í því að nýta viðmiðunar-erfðamengi, í tengslum við heilraðgreiningar á mörgum einstaklingum úr hrygningarstofninum, til að skilja betur uppbyggingu íslenska þorskstofnsins. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar kemur að því að skilja samspil erfðafræðilegar stofnuppbyggingar og fargerða þorsks, þ.e. djúpfarsþorsks, sem fer í langar fæðugöngur og grunnfarsþorsks, sem eru staðbundnari.

Umfangsmiklar merkingar Hafrannsóknastofnunar á þorski, með gagnamerkjum sem safna upplýsingum um hitastig og dýpi, hafa sýnt að farhegðun er mjög breytileg í íslenskum þorski. Nú hafa heilraðgreiningar á erfðamengi þessara sömu fiska sýnt að fargerðirnar aðgreinast á tengslahóp, þ.e. svæði á erfðamenginu þar sem fjöldamörg gen erfast saman á milli kynslóða, stundum kallað „súpergen“.