Sértækur auðlindaskattur á makrílveiðar, sem hugmyndir hafa komið fram um nýverið, er hærri en sem nemur framlegð útgerða af veiðunum, segir Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ í grein í Fréttablaðinu í dag.
Þótt engin nöfn séu nefnd er þarna verið að vísa til ummæla Ólínu Þorvarðardóttur alþingismanns þess efnis að ef rukkað hefði verið inn veiðigjald fyrir makrílinn á þessu ári með hliðsjón af leigugjaldinu fyrir skötuselinn hefði það fært ríkinu 9 milljarða króna í tekjur.
Friðrik tekur dæmi af frystitogara sem veiddi um eitt þúsund tonn af makríl sl. sumar. ,,Aflaverðmætið var um 210 milljónir. Laun og launatengd gjöld og kostnaður nam tæpum 90 milljónum. Olía, veiðarfæri, umbúðir, hafnargjöld, löndunarkostnaður, tryggingar, flutningskostnaður, sölukostnaður, viðhald og annar kostnaður voru rúmar 68 milljónir. Ríkið og sveitarfélögin fá auðvitað sinn skerf af framangreindum fjárhæðum. Framlegð útgerðar fyrir fjármagnskostnað, afskriftir, skatta og arðgreiðslur var rúmar 52 milljónir.”
Síðan segir Friðrik: ,,Nýlega hafa verið settar fram hugmyndir um sértækan auðlindaskatt á makrílveiðar sem næmi í þessu dæmi um 58 milljónum króna. Tapið af veiðunum fyrir fjármagnskostnað og afskriftir yrði 6 milljónir en mun meira að teknu tilliti til þessara liða. Það sjá allir hvernig gengi að fjármagna skipakaup og rekstur slíkrar útgerðar. Að sjálfsögðu yrði ekkert eftir handa eigendunum. Þannig jafnast þessar hugmyndir á við það að ríkið hirði ekki bara öll laun launþegans heldur gott betur. Þó að það sé gaman í vinnunni og að stunda makrílveiðar þá er í hvorugu tilfellinu vænlegt að borga með sér.”