Elvar er fæddur og uppalinn á Stykkishólmi og fór að loknum menntaskóla í fiskeldisnám í Þrændalögum í Noregi. Í framhaldinu hóf hann háskólanám í fiskeldi í Sogndal og lauk svo meistara-og doktorsnámi í líffræði og fiskifræði frá Háskólanum í Tromsö. Árið 2009 hóf hann að starfa hjá starfsstöð Hafrannsóknastofnunar Noregs þar í borg.
Elvar hefur búið og starfað í Noregi á þriðja tug ára og er með norskt og íslenskt vegabréf. Honum líður eins og hann sé kominn heim þegar hann kemur til Íslands en það gerir hann líka þegar hann snýr aftur til Noregs. Þegar rætt var við Elvar höfðu Norðmenn nýlega og einhliða úthlutað sér um 300.000 tonna makrílkvóta eða um 35% af ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem vakti hneykslan hér á landi. Elvar segir að þegar kemur að þrætum Norðmanna og Íslendinga um fiskistofna hafi hann sjálfur kosið að halda sig sem allra mest til hlés. Á sínum tíma, þegar síldin hafi aftur náð sér á strik, hafi Norðmenn verið uppteknir af því hvar síldin ætti heima og Íslendingar hafi verið uppteknir af sögulegum rétti sínum. Í makrílnum virðist þessu öfugt farið.
Mikið samstarf Norðmanna og Rússa
Gulllax og grálúða eru nytjastofnar í Noregi og sérstaklega þó grálúðan. Gulllaxinn er Norðmönnum ekki jafn verðmætur og grálúða og einkum fluttur út til Egyptalands. Meiri þungi er þess vegna í rannsóknum sem lúta að grálúðustofninum.
„Grálúðan heldur sig mest í Barentshafinu og eins og annað sem lýtur að því hafsvæði þá skiptast stofnarnir þar á milli Noregs og Rússlands. Töluvert samstarf er því á milli Norðmanna og Rússa í tengslum við þá nytjastofna sem eru í Barentshafinu. Það á jafnt við um grálúðu, þorsk, ýsu, loðnu og fleiri stofna. Gott samstarf og samskipti við Rússa er nauðsynlegt. Allt frá árinu 1952 hafa vísindamenn frá þessum löndum átt með sér árlega fundi sem haldnir eru til skiptis í Múrmansk og Tromsö eða annars staðar í Noregi. Þess utan mætum við rússneskum kollegum okkar einnig á fundum Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Menn þekkjast því sem er mikilvægt í samstarfinu við Rússa. Þeir lifa og starfa í öðru kerfi og við þurfum að hafa skilning á þeirra aðstæðum og hvaða gögnum þeir geta skipst á. Það er ekki frjálst flæði upplýsinga frá þeim heldur ákveðnar takmarkanir hvernig gögn þeir mega láta af hendi. Einu sinni á ári er farinn samkvæmt samningi þar um, einn stór, sameiginlegur leiðangur þjóðanna, svokallað Ecosystem Survey , sem dekkar allt Barentshafið. Öll gögn frá þeim leiðangri eru sameiginleg. Rússarnir sjá um sinn hluta af Barentshafinu og Norðmenn sinn. Gögnin eru í framhaldinu samhæfð og samkeyrð svo breið niðurstaða fáist frá þessu mikla hafsvæði. Fiskveiðiráðgjöf úr mörgum stofnum í Barentshafinu byggir að mestu leyti á niðurstöðum úr þessum leiðangri,“ segir Elvar.
Fyrst var farið í þennan stóra leiðangur árið 2003. Byggt á gögnum frá þessum tíma allt fram til 2018 var hlýnun í Barentshafinu. Einnig má greina af þessum gögnum og greinar verið um það skrifaðar að tegundasamsetningar hafa breyst í hnattrænu tilliti. Þorskur hefur til að mynda fært sig norðar og allt að Svalbarða.
Svalbarði
Elvar tók þátt í rannsóknaverkefni um vistkerfið í kringum Svalbarða og áhrif hins mannlega þáttar á það, til að mynda hlýnunar af völdum gróðurhúsalofttegunda. Þar var til dæmis rýnt í möguleg áhrif þess ef íslaust yrði fyrir norðan eyjuna m.a. með tilliti til hrygningarferlis grálúðu. Hún hrygnir nú á kantinum fyrir utan Bjarnarey en tilgangur rannsóknarinnar var sá að reyna að komast að því hvað yrði um seiði færi hún að hrygna norðar. Núna endar leið þeirra að stærstum hluta milli Svalbarða og Franz Jósefslands en fari svo að grálúðan hrygni norðar gæti sjávarhitastig og straumar borið seiðin inn í rússneska lögsögu sem kæmi náttúrulega verulega við hagsmuni Norðmanna.

- Ánægður með að hafa fengið tilætlaðan afla í tilraun til að nota línu á rannsóknarskipi á íslögðu svæði. Það eru tvær tegundir af tannfiski til, þetta er sú suðlægari (Dissostichus mawsoni) og sú sem verður stærri, yfir 2 metra löng og um 50 ára gömul. Hin tegundin Patagónískur tannfiskur (Dissostichus eleginoides) heldur til í aðeins heitari sjó lengra norður og er stærri hlutfallslega í tannfiskveiðum. Mynd/Rudi Caeyers
Elvar hefur ekki síður átt gott samstarf við kollega sína hjá Hafró á Íslandi í gegnum samstarfsvettvanginn hjá Alþjóða hafrannsóknaráðinu. Þessar systurstofnanir eru ólíkar hvað umfang og stærð ræðir. Hjá Hafró á Íslandi starfa að jafnaði 190 starfsmenn á tíu starfsstöðvum en samanlagt starfa um 1.100 manns hjá Hafró í Noregi og stofnunin gerir út sjö skipa og báta af ýmsum stærðum og gerðum. Á flestum þeirra eru tvær áhafnir og rannsóknastöðvar og útibú eru á sex stöðum í landinu. Höfuðstöðvarnar eru í Bergen þar sem starfa á fimmta hundrað manns en í starfsstöðinni í Tromsö starfa um 90 manns.
Á Íslandi var Veiðimálastofnun og Hafrannsóknastofnun slegið saman í eina stofnun sumarið 2016, Haf og vatn, en í Noregi er ferskvatnsfiskur úr ám og vötnum ekki á starfssviði stofnunarinnar. Rannsóknir og eftirlit með fiskeldi er engu að síður stór þáttur í starfseminni. Nokkur ár eru frá því að verðmæti fiskeldis fór fram úr verðmætum af fiskveiðum í Noregi.
Norska hafrannsóknastofnunin fær á þessu ári 1,4 milljarða norskra króna frá hinu opinbera til rekstursins, 20,5 milljarða ÍSK. Auk þess sækir stofnunin sér aðra styrki til ýmissa rannsókna. Fjárveiting úr ríkissjóði til Hafrannsóknastofnunar á Íslandi á árinu 2020 var 3.115 milljónir kr. en tekjur stofnunarinnar voru 1.085 milljónir kr., m.a. vegna vörusölu, seldrar þjónustu og ýmissa annarra tekna og framlaga.
Suðurskautslandið
Nokkrir af þekktari landkönnuðum heims voru Norðmenn. Þar má nefna Eirík rauða Þorvaldsson, Fridtjof Nansen, Thor Heyerdahl og Roald Amundsen sem stýrði Suðurskautsleiðangrinum 1910-1912 og varð fyrstur manna á Suðurpólinn. Noregur er ein þeirra sjö þjóða sem hafa gert tilkall yfir ákveðnum landsvæðum Suðurskautslandsins m.a. á grunni þessa og ein þeirra þjóða sem hefur stundað rannsóknir á þessum slóðum. Þessi svæði eru Dronning Maud land, Peter I ey og Bouvetey sem alls er um 17% af Suðurskautslandinu. Norðmenn eru með heilsárs rannsóknastöð á Dronning Maud land.

- Kaffipása við lengdarmælingu á rækjum úr sýni sem tekið var með botntrolli á ca 1000 m dýpi á Astrid hryggnum sem gengur út frá Dronning Maud Land. MYND/Elvar Hallfreðsson
Elvar tók nýlega þátt í norskum rannsóknarleiðangri sem farinn var þangað á nýja rannsóknaskipinu og ísbrjótnum Krónprins Hákon á vegum Norsku heimskautastofnunarinnar með þáttöku Norsku hafrannsóknastofnunarinnar. Þar stýrði hann rannsóknum sem lutu að fisktegundum. Sunnarlega við Suðurskautslandið hafa Norðmenn stundað veiðar á tannfisk, mjög verðmætri tegund sem kallast á ensku antarctic toothfish. Fiskurinn, sem getur orðið yfir 2 metrar á lengd, er einkum veiddur á línu á 1.000-1.500 metra dýpi. Tannfiskur veiðist illa i troll, og það hefur hamlað rannsóknum á íslögðum svæðum með rannsóknarskipum. Í leiðangrinum voru gerðar tilraunaveiðar á tannfiski á línu og fengust fjórir fiskar, sá stærsti 1,70 m á lengd. Á leiðangrinum voru gerðar fjölþættar haffræðirannsóknir og vistfræði rannsóknir allt frá botndýrum upp til sjávarspenndýra og fugla. Við botndýrarannsóknirnar var meðal annars notaður ómannaði kafbáturinn Ægir 6000, sá sami og nýverið hefur verið notaður til slíkra rannsókna í Grænlandssundi. Meðal annars var sýrustig sjávar mælt og útbreiðsla og þéttleiki ljósátu af tegundinni antartica superbia sem er á stærð við kaldsjávarrækju og Norðmenn stunda einnig veiðar á. Þessi ljósátutegund er mikilvægur þáttur í vistkerfinu á svæðinu og aðalfæða ýmissa hvala og selategunda, sem og mörgæsa og annara fuglategunda. Tíu daga sigling er á þetta gríðarstóra svæði frá suðurodda Suður-Ameríku og þarna fóru fram rannsóknir í um 25 daga. Tók þá við önnur tíu daga sigling að Höfðaborg í Suður-Afríku.
Mjög takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu hafsvæði og aðaltilgangur leiðangursins var að safna gögnum og auka þekkingu vegna hugmynda um verndarsvæði í sjó sem lagt er til að verði á þessu svæði og aðliggjandi hafsvæði til vesturs, Weddel hafinu.
Eins og sjá má af þessu er starfssvið Elvar hjá norsku hafrannsóknastofnuninni vítt og fjölbreytt en stóru verkefnin eru sem fyrr segir stofnmat og ráðgjöf á djúpsjávarfiskum og brjóskfiskum.