Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir það ekki hafa áhrif á áformaða málshöfðun félagsins vegna hvalveiðibanns að félagsmenn séu við störf hjá Hval hf. í sumar.
Fram kom í Morgunblaðinu á þriðjudag að starfsmenn Hvals væru við ýmis viðhaldsstörf þrátt fyrir að veiðar væru ekki stundaðar í kjölfar þess að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra stoppaði þær af degi áður en vertíðin átti að hefjast.
„Þetta er bara dagvinna en ekki þessi vinna sem fólkið var að ráða sig í,“ segir Vilhjálmur. Launin nú séu vart nema 30 til 40 prósent af því sem hefði orðið ef verið væri að veiða hval með hefðbundinni vaktavinnu í landi.
„Núna bíða menn spenntir eftir svörum matvælaráðuneytisins sem eiga að berast til Umboðsmanns Alþingis 15. ágúst. Vonandi mun umboðsmaður taka endanlega afstöðu í málinu á sem skemmstum tíma,“ segir Vilhjálmur.
Haldið í von um veiðar
Fyrir liggur að sögn Vilhjálms að hvalveiðivertíðin geti hafist 1. september því veiðibann matvælaráðherra renni út 31. ágúst.
„Það liggur fyrir að Hvalur ætlar sér að fara af stað 1. september. Það er kannski meginástæðan fyrir því að Hvalur tekur ákvörðun um að halda öllum mannskapnum til að eiga möguleikann á að ná einhverjum vikum sem eftir eru af vertíðinni,“ segir Vilhjálmur.
Matvælaráðherra byggði ákvörðun sína á að ekki yrði leyft að veiða langreyðar út ágúst á því að veiðarnar eins og þær hefðu verið stundaðar uppfylltu ekki ákvæði laga um dýravernd.
„Ég veit að Hvalur var byrjaður að þróa búnað til að árangurinn yrði ennþá betri. Það lá fyrir áður en matvælaráðherra tók þessa ákvörðun,“ svarar Vilhjálmur því hvort eitthvað hafi breyst hvað það varði. Hins vegar sé ekki vitað hvort ráðherra muni framlengja veiðibannið.
Sæki bætur frá skattgreiðendum
„Hún er þegar farin að ýja að því að hún muni gera það. Þetta er bara geðþóttaákvörðun sem byggist á pólitískri hugsjón ráðherra um andstöðu við hvalveiðar. Spurningar umboðsmanns til ráðuneytisins staðfesta þann ótta,“ segir Vilhjálmur. Alveg ljóst sé að málið fari fyrir dómstóla. Hvalur hafi þegar orðið fyrir gríðarlegu tjóni.
„Hvalur er klárlega að hlaða í risastórar skaðabótakröfu á hendur ríkinu,“ segir Vilhjálmur. „Hann heldur öllum mannskapnum núna með von um það að lágmarka sitt tjón með því að hefja veiðarnar 1. september.“
Stoppi vitleysuna af
„Ef ákvörðunin byggist ekki á lögum eins og margir lögspekingar hafa ýjað að þá blasir það við að þessi reikningur mun enda á skattgreiðendum. Ég velti því fyrir mér hvort Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra muni þá segja það sama og þegar hún var dæmd fyrir brot á lögum síðast; ég er bara í pólitík,“ segir Vilhjálmur og lýsir sem fyrr ábyrgð á hendur samstarfsflokkum VG í ríkisstjórn.
„Bæði Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa sagt að þessi ákvörðun matvælaráðherra standist ekki lög og því er ábyrgð þeirra mikil að þessi skaðabótakrafa verði mun lægri en ella með því að stoppa þessa vitleysu af.“