Aðalsteinn Jónsson SU frá Eskifirði kom inn til hafnar í síðustu viku með fullfermi af frystum makríl. Um 600 tonn af frystum afurðum eru í lestum skipsins og svo landaði skipið einnig 310 tonnum af makrílafskurði og 350 tonnum af síld sem veiðist sem meðafli.
Allur makríll sem Aðalsteinn veiðir er hausaður og slógdreginn og seldur til manneldisvinnslu í Austur Evrópu. Það gekk mjög vel á miðunum að sögn Daða Þorsteinssonar skipstjóra en aflinn var blandaður af síld og makríl. Síld sem veiðist sem meðafli með makríl er ekki vinnsluhæf og fer því til frekari vinnslu í fiskimjölsverksmiðju Eskju hf.
Frá þessu er skýrt á vef Eskju.