Á þessu sumri voru strandveiðileyfi gefin út til 688 báta en 672 héldu til veiða á þessu sumri. Strandveiðin hófst 1. maí en veiðum lauk 18. ágúst. Alls var úthlutað 12.271 tonni af veiðiheimildum í þorskígildum talið. Þar af voru 11.171 tonn af þorski. Afli strandveiðibáta í ár varð 12.170 tonn í þorskígildum talið og þar af 11.159 tonn af þorski sem er 99,9% af úthlutuðum þorskheimildum.

Þetta kemur fram í samantekt Fiskistofu.

Þar segir jafnframt að á strandveiðum má hver bátur landa að hámarki 650 kílóum af slægðum afla í þorskígildum talið í hverri veiðiferð en alls var landað 163 tonnum í þorskígildum talið af umframafla. Alls voru 550 skip sem lönduðu umfram leyfilegt magn. Mestur var umframafli á svæði A, sem er stærsta svæðið en tölfræðisamantekt Fiskistofu sýnir að sumar skráningar umframafla snerta aðeins einn eða fáeina fiska og ber skráningu að skoðast í því ljósi.