Sl. gamlársdag var undirritaður samningur á milli Síldarvinnslunnar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um að öllum starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem náð hafa 50 ára aldri gefist kostur á ristilspeglun þeim að kostnaðarlausu. Fram kom að Síldarvinnslan myndi greiða allan kostnað vegna speglananna og að auki færa Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað að gjöf nýtt speglunartæki.

Nú er komið að því að hrinda þessum fyrirheitum í framkvæmd.

Að sögn Hákons Ernusonar starfsmannastjóra Síldarvinnslunnar eru starfsmenn fyrirtækisins, sem eru 50 ára og eldri, 99 talsins. Gert er ráð fyrir að verkefnið hefjist á næstu dögum. Að mati Hákons er einkar ánægjulegt að geta hafið verkefnið í sjálfum mottu-mars. Síðan mun aukinn kraftur settur í verkefnið í maímánuði og gert er ráð fyrir að síðustu starfsmennirnir verði kallaðir í speglun undir lok ársins. Á haustmánuðum verður tilkynnt um fyrirkomulag  speglana á starfsmönnum Síldarvinnslunnar í Helguvík og á Seyðisfirði.

Sjá nánar á vef SVN.