Fiskiskipaflotinn í Noregi sparar um 550 milljónir norskra króna á ári í olíukostnað miðað við verð á olíu eins og það var snemma sumars 2014. Þessi upphæð samsvarar um 9,6 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram á vef norska síldarsamlagsins.
Fiskiskip í Noregi fara með nærri 400 milljónir lítra af olíu á ári. Miðað við olíuverð í dag færi flotinn með um 1,65 milljarða í olíukostnað á ársgrundvelli (um 28,7 milljarða ISK). Miðað við verð á olíu eins og það var í júní 2014 væri kostnaðurinn um 2,2 milljarðar á ári (um 38,3 milljarðar ISK). Verðið hefur lækkað um 25% frá þeim tíma. Haldist verðið jafnlágt og það er í dag sparar flotinn sem sagt 550 milljónir norskar á ári.